Fara í efni

FRJÁLSIR MENN

DV - LÓGÓ
DV - LÓGÓ
Birtist í DV 08.04.15.
Ég er sammála rithöfundunum Einari Kárasyni og Hallgrími Helgasyni að mikið er gefandi fyrir einstaklingsfrelsið. Sjálfur hef ég aldrei getað þolað að vera í umhverfi sem sníður mér þröngan stakk fyrir skoðanir og gjörðir. Hvers kyns hjarðmennska hefur mér frá blautu barnsbeini  verið eitur í beinum. 

Rithöfundar í frelsisbaráttu

Þetta þýðir ekki að ég sé sammála frelsisútleggingum þeirra félaga sem nú hafa báðir blandað sér í umræðuna um áfengi  í búðir (eða ekki í búðir) og báðir sigla þeir undir  frelsisfánum.
Hallgrímur Helgason trúði lesendum Stundarinnar fyrir því fyrir skömmu að hér yrði komið upp sérverslunum sem til dæmis sérhæfðu sig í vínum ættuðum úr tiltekinni fjallshlíð á Spáni. Einari Kárasyni finnst eitthvað „óþægilegt við þá samfélagsskipan að ríkið eitt megi selja áfengi" og að það „tengist líka þeirri hugsun að það fari betur á því að eitthvert yfirvald frekar en einstaklingurinn sjálfur taki ákvarðanir um eitthvað sem er algerlega hans einkamál."

Bensínstöðin í Berlín

Báðir rökstyðja rithöfundarnir mál sitt úr eigin reynsluheimi svo og úr veröld óskhyggjunnar. Þannig segir Einar okkur frá því í grein í DV að um tíma hafi hann búið í Berlín í grennd við bensínstöð sem seldi áfengi án nokkurra vandræða og í Kaupmannahöfn,  þar sem hann einnig bjó að því mér skilst, hefði snöfsum iðulega verið stillt upp í augnhæð í sjoppum án þess af því hlytist sjáanlegur skaði. Enda hafi  fæstir Íslendingar sem búið hafa erlendis „séð merkjanlegan þjóðfélagslegan mun  á því hvernig háttur er hafður á við sölu og dreifingu áfengis". 

Skemmtilegheit og staðreyndir

Bæði Hallgrímur Helgason og Einar Kárason eru skemmtilegir menn og í bland sýnist mér þeir setja mál sitt fram til að skemmta okkur lesendum. Yfirleitt tekst þeim það ætlunarverk sitt vel.
Ég ætla hins vegar að gerast svo hundleiðinlegur að horfa á það sem ég held að séu blákaldar staðreyndir í þessu máli.


Spurningar og svör

1) Það er rangt hjá Einari Kárasyni að sölu- og dreifingarmáti á áfengi hafi lítil sem engin áhrif á sölumagn og áfengisneyslu. Rannsóknir tala gagnstæðu máli.
2) Það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi bannar ríkinu að koma nærri sölu og dreifingu á áfengi. Skerðir það ekki frelsið?
3) Hvers vegna á að skerða frelsi mitt til að búa við fyrirkomulag sem a) tryggir mér meira úrval, b) lægra vöruverð, c) og er ríkissjóði og þar með mér sem skattgreiðanda hagstæðara en það fyrirkomulag sem lagt er til að hér verði tekið upp?
4) Kæmi Bónus og Krónan og þess vegna bensínstöðin N1  til með að hafa minni áhrif á það hvernig ég neyti áfengis en starfsfólk ÁTVR gerir? Ég vil endilega að fólk sé sem allra frjálsast;  ég aðhyllist einmitt  fyrirkomulag sem tryggir mér sem mest frelsi og hagkvæmni jafnframt því sem ég vil taka tillit til sjónarmiða þeirra sem telja ágenga auglýsinga- og sölumennsku vera til ills. 
5)  Er það forpokað að hlusta á ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda, lækna, aðhlynningarstétta og forvarnarsamtaka  sem glíma við afleiðingar áfengisvandans?
6) Þar sem í framangreindum skrifum er hlegið að Íslendingum fyrir að vilja banna áfengisauglýsingar í landamæralausum auglýsingaheimi, langar mig til að gerast málsvari þess að við berjumst fyrir slíku banni bæði hér og erlendis og tökum höndum saman með heilbrigðisyfirvöldum  og almannasamtökum sem reyna að þrengja að hinum ótrúlega ágenga áfengis- og tóbaksiðnaði. Eða hvers vegna halda menn að ekki hafi tekist að koma innihaldsupplýsingum á áfengisflöskur?
7) Er ekki líklegra að hægt sé að fá vínflöskur úr mörgum fjallshlíðum Suður-Evrópu í sérverslunum  ÁTVR  en í sérhæfðri  smáverslun á horninu? Hve líklegar eru slíkar sérhæfðar smáverslanir til að þrífast víða á landinu, jafnvel á höfuðborgarsvæðinu? Yrði það ekki gamli góði Bónus sem hefði vinninginn? Restin afgangsstærðir.
8) Eftir því sem mér er sagt útvegar ÁTVR okkur allar þær tegundir sem hugurinn kann að girnast. Myndi Krónan gera það?

Frjálst val

Tengjast ekki þessar spurningar sem hér er varpað fram á einn eða annan hátt, beint eða óbeint, spurningum um  frelsi  og frjálst val? Er ekki stóra málið þegar allt kemur til alls, að verða svo frjáls í andanum, svo laus undan fordómum og boðvaldi ríkjandi kennisetninga sem banna harðlega að ríkið stígi inn á markaðstorgið - að við getum leyft okkur þann munað að búa við kerfi sem gagnast okkur best sem neytendur og sem samfélag?