Fara í efni

FRUMVARP UM RANNSÓKNARHEIMILDIR LÖGREGLU ER TILBÚIÐ

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í Morgunblaðinu 13.10.14.
Af þekktu tilefni er þessa dagana rætt um rannsóknarheimildir lögreglu og eftirlit  með framkvæmd laga á því sviði. Umræðan er ekki ný af nálinni og kom ég nokkuð að þessum málum sem dómsmálaráðherra, síðar innanríkisráðherra, frá því haustið 2010 og fram á mitt ár 2013.

Ærið tilefni til endurskoðunar

Fljótlega eftir að ég tók við embætti ráðherra dómsmála hóf ég yfirferð á lögum og reglum um rannsóknarheimildir lögreglu. Tilefnið var ærið. Annars vegar var varað sterklega við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi, sem lögreglan þyrfti að vera nægilega vel búin til að takast á við. Hins vegar komu á þessum tíma fram í dagsljósið umfangsmiklar leynilegar aðgerðir lögreglu í Evrópu gegn grasrótarhreyfingum, en þær aðgerðir teygðu anga sína til Íslands.

Skýr lína milli glæpamanna og félagasamtaka

Þessi mál eru ólík en kölluðu engu að síður á sambærilega umræðu: Í hvaða tilfellum er réttlætanlegt að beita íþyngjandi rannsóknaraðferðum sem skerða friðhelgi einkalífsins?
Í mínum huga er þetta skýrt. Þegar rannsókn beinist að ofbeldisverkum og stórkostlegum lögbrotum á lögregla að hafa nægilegar heimildir til að upplýsa glæpi og eftir því sem mögulegt er að koma í veg fyrir þá. Heimildir lögreglu þurfa að vera skýrt skilgreindar í lögum og reglum og eftirlit þarf að vera nægilega öflugt til að koma í veg fyrir að heimildunum sé misbeitt. Slíkar rannsóknarheimildir eiga hins vegar alls ekki að ná til félagasamtaka eða pólitískra hreyfinga.

Ákall lögreglu


Fljótlega eftir að ég tók við embætti ráðherra dómsmála greindu lögregluyfirvöld mér frá vísbendingum um að alþjóðlegir glæpahringir væru að skjóta rótum á Íslandi. Kallaði lögreglan eftir sérstökum fjárheimildum til að sporna gegn þessari þróun og einnig að lagaheimildir til rannsókna á starfsemi glæpasamtakanna yrðu rýmkaðar. Ég skynjaði strax alvöruna í ákalli lögreglunnar, ekki aðeins vegna þeirra orða, heldur líka vegna fórnarlamba þessara glæpasamtaka sem settu sig í samband við mig og greindu mér frá reynslu sinni. Ég einsetti mér að gera allt sem í mínu valdi stæði til að styðja við bakið á lögreglu í baráttunni gegn skipulögðum glæpasamtökum.
Í framhaldinu var sérstöku fjármagni veitt til átaks gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Samstaða myndaðist um það á Alþingi og árangurinn var ótvíræður. Bæði minnkaði umfang samtakanna og áætlanir þeirra um frekari útbreiðslu á Íslandi gengu ekki eftir.

Lægri þröskuldur

En ég vildi líka hlusta á áhyggjur lögreglu af reglum um rannsóknarheimildir. Ég lagði því fram frumvarp til breytinga á sakamálalögum sem lækkaði þröskuldinn fyrir lögreglu til að geta hafið rannsókn á brotum sem falla undir ákvæði hegningarlaga um skipulagða glæpastarfsemi (175. gr. a). Ég vildi hins vegar binda þessa rýmkun heimilda eingöngu við slík glæpasamtök. Fyrir því myndaðist ekki pólítísk samstaða, enda kom í ljós að bæði á Alþingi og innan lögreglunnar stóð vilji til „að nota tækifærið" til að koma á miklu víðtækari eftirlitsheimildum, það er forvirkum rannsóknarheimildum að hætti leyniþjónustu á Norðurlöndum. Málið dagaði uppi.

Upplýsingar rötuðu til Íslands

Eftir að fram kom að flugumaður bresku löreglunnar, Mark Kennedy, hefði starfað innan náttúruverndarsamtaka á Íslandi óskaði ég eftir upplýsingum um hvort það hefði verið með vitund og vitneskju íslensku lögreglunnar. Að lokinni athugun Ríkislögreglustjóra var mér skýrt frá því að embættið hefði átt í samstarfi við erlend lögreglulið og hefði fengið þaðan upplýsingar um mótmælin vegna framkvæmdanna á Kárahnjúkum, án þess að fyrir lægju gögn um hvernig þær væru til komnar, hvaða  einstaklingur ætti í hlut.

Relgum um flugumenn breytt

Í reglugerð um sérstakar rannsóknaraðferðir lögreglu við rannsókn sakamála - sem ég setti  í maí 2011 og fjallar um rannsóknaraðferðir sem ekki þarf dómsúrskurð fyrir - er tekinn af allur vafi um að starfsemi eins og sú sem Kennedy stundaði er ekki heimil á Íslandi. Þannig er beiting flugumanna háð sérstöku samþykki ríkissaksóknara og - eins og á við um aðrar rannsóknaraðferðir - má aðeins nota flugumenn ef brotið sem er til rannsóknar varðar a.m.k. átta ára fangelsi eða er sérstaklega tiltekið í reglugerðinni. Þá er skýrt tekið fram í reglugerðinni að lögreglumönnum sé ekki heimilt að stofna til kynferðislegra eða tilfinningalegra sambanda í starfi sínu, en Kennedy hafði stofnað til slíkra sambanda í Evrópu.

Bregður fyrst núna

Frumvarp sem skerpir á skilyrðum fyrir rannsóknarheimildum lögreglu - og nú er kallað eftir - er þegar til, það var lagt fyrir Alþingi í október 2012. Á þeim tíma kom hins vegar fram að margir - ógnvænlega margir að mínu mati - vildu heldur að lög um rannsóknarheimildir væru óljós og gæfu rými til túlkunar. Þeim hinum sömu bregður hins vegar fyrst þegar óljósar rannsóknarheimildir koma niður á þeirra líkum. Þannig virðist hluti Alþingis vakna til lífsins þegar lögregla rannsakar hvítflibbabrot. Í öllu falli má taka frumvarpið frá árinu 2012 upp að nýju núna. Jafnframt má gera alvöru úr því sem þá var rætt að setja í lög að allsherjarnefnd Alþingis hafi eftirlit með beitingu símhlerana. Þannig má tryggja varnaglana sem nauðsynlegir eru í réttarríkinu. En á sama tíma ógnum við ekki lýðræðinu, enda væri þá betur heima setið en af stað farið.