Fara í efni

FUNDAÐ Í PARÍS UM LYFJAGLÆPI OG STAÐGÖNGUMÆÐRUN

Lyfja - ráðstefna
Lyfja - ráðstefna

Í vikunni sótti ég tvo athyglisverða fundi í París á vegum Evrópuráðsins. Annars vegar var mér boðið að sitja fund um lyfjaglæpi - medicrime - og hins vegar sótti ég fund félagsmálanefndar ráðsins en í henni á ég sæti.

Höfum undirritað en ekki lögleitt

Fyrri fundinn sat ég ásamt Einari Magnússyni, sérfræðingi heilbrigðisráðuneytisins í lyfjamálum, en hann gegnir mikilvægu hlutverki sem formaður starfsnefndar Evrópuráðsins, sem hefur lyfjamál a sinni könnu.
Á fundinum, sem væri ef til vill nær að kalla ráðstefnu, kom fjöldi sérfræðinga til að fjalla um glæpi sem eru í því fólgnir að selja sjúklingum falslyf sem hafa engan lækningamátt en geta þvert á móti valdið umtalsverðum, og í sumum tilvikum, alvarlegum skaða. Þess eru dæmi að seld hafa verið sprautulyf í Afriku sem við athugun reyndust vera fals-vessi.
Í okkar heimshluta hafa verið seld lyf sem sögð eru lækning  við sjúkdómum á borð við astma, eyðni, krabbameini o.fl. án þess að það stæðist á nokkurn hátt.
Evrópuráðið efndi til ráðstefnunnar til að hvetja ríki til að lögleiða sáttmála ráðsins sem gengur út á að innleiða samræmd viðbrögð við starfsemi af þessu tagi.
Íslendingar voru á meðal þeirra fyrstu til að undirrita sáttmálann og gerði ég það sem innanríkisráðherra ásamt Guðbjarti Hannessyni, þáverandi heilbrigðsráðherra, haustið 2011.
Enn eigum við síðan eftir að lögleiða sáttmálann. Ráðstefnan var hin fróðlegasta  og mun ég gera nánar grein fyrir henni síðar á opinberum vettvangi.
http://assembly.coe.int/nw/xml/News/News-View-EN.asp?newsid=5892&lang=2&cat=133


Vatn og mannréttindi

Félagsmálanefnd Evrópuráðsins  fjallað á þessum Parísarfundi sínum um heilbrigðismál og mál af félagslegum toga sem lúta að mannréttindum. Má þar nefna deilur sem staðið hafa allar götur frá því að Armenía lagði undir sig fimmtung af Azerbaijan, héraðið Nagarno Karabakh, á fyrri hluta tíunda áratugarins. Í Nagarno Karaback er að finna gríðarmikið vatnsból - Sarsang vatnsbólið - sem notað var til að miðla vatni til akuryrkjuhéraða á þessum slóðum, ekki síst í Azerbaijan. Vandinn er sá að forsvarsmenn Azerbaijan og Armeníu talast ekki við og með þingfulltrúum þessara ríkja á þingi Evrópuráðsins verður ekki sagt að miklir kærleikar séu. Smitar ósættið inn í allar umræður. Ljóst er að á næsta þingi Evrópuráðsins í byrjun næsta árs verður samþykkt ályktun á hendur stjórnvöldum í Armeníu og þess krafist að þau haldi ekki vatni frá þurfandi fólki enda samræmist það ekki mannréttindum.

Hitaumræða um staðgöngumæðrun

Önnur umræða, ekki síður tilfinningaþrungin fjallaði um staðgöngumæðrun. Í drögum að ályktun sem lögð voru fyrir nefndina er lagst algerlega gegn staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni en jafnframt sagt að það skuli komið undir hverju ríki um sig hvernig lagaumgjörð verði háttað. Ekki eru allir á eitt sáttir um að svo skuli vera og á þetta mál eftir að kalla á miklar umræður á næstu þingum Evrópuráðsins enda eitt af brennandi málum okkar samtíðar.

Hvað veldur vaxandi misskiptingu?

Fjölmörg önnur mál voru á dagskrá þar á meðal var samþykkt tillaga frá mér um að gerð verði rannsóknarskýrsla um samhengið á milli vaxandi ójafnaðar og dvínandi áhrifa verkalýðshreyfingar. Var samþykkt að ég stýrði þessari rannsóknarvinnu og mun ég hefjast handa í byrjun næsta árs.