FUNDURINN Í VALHÖLL UM MEST OG BEST
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 25/26.10.23.
Það er vitað að Sjálfstæðisflokkurinn vill að markaðslögmálin séu virkjuð sem mest og best. Ég vissi þetta mæta vel þegar ég var fyrir fáeinum árum beðinn um að mæta á kappræðufund í Valhöll, sjálfu hreiðri Sjálfstæðisflokksins, um frjálsræði í áfengissölu, með öðrum orðum um afnám ÁTVR.
Ég var þess vegna við öllu búinn þegar fundurinn hófst. Salurinn var þéttskipaður, áhuginn á málefninu augljós. Við vorum í sama liði ég og Ari Matthíasson, fyrrum framkvæmdastjóri SÁÁ og síðar Þjóðleikhússtjóri. Í hinu liðinu var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og síðan áhugamaður um frjáls viðskipti.
Svo hófst fundurinn. Bæði lið tefldu fram sínum rökum en að framsögum loknum hófust almennar umræður. En þá gerðist hið óvænta. Í ljós kom að málstaður okkar Ara Matthíassonar átti alls ekki undir högg að sækja í þessu musteri markaðshyggjunnar. Mín tilfinning var sú að um helmingur salarins væri beinlínis á okkar bandi og í spjalli að fundinum loknum sannfærðist ég um að svo væri í raun.
Þarna var engu að síður samankomið fólk sem átti það sameiginlegt að fylgja þeirri pólitísku stefnu að virkja bæri markaðslögmálin eins og kostur væri, sem allra mest.
En eftir stóð þá hvað væri best.
Innan þessa hægri sinnaða flokks var nefnilega að finna fólk sem taldi að þegar lýðheilsan væri í húfi ætti hún að hafa forgang. Þá væri það ekki endilega best að virkja markaðslögmálin sem mest. Og vel að merkja þarna var fólkið sem trúði því að með því að virkja markaðinn næðist betri árangur en með ríkisstofnun. Það gilti þá eining um sölu áfengis. Því virkari sem hvatar markaðarins yrðu á því sviði þeim mun meira drykki þjóðin af brennivíni og bjór. Það væri ekki endilega gott, hvað þá best.
Þetta er sú niðurstaða sem heilbrigðisstéttirnar hafa líka komist að, ekki bara hér á landi heldur einnig á heimsvísu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur enda lýst aðdáun sinni á íslenska kerfinu, því það stuðli að góðu utanumhaldi og þar með lýðheilsu, og hvetur stofnunin okkur eindregið til að halda í fyrirkomulag er hafi ekki í sér innbyggða hvata sem stuðli að sem mestri áfengisneyslu.
Menn hafa gert sér það til gamans að undanförnu að hæðast að þeim sem vöruðu við því við afnám bjórbannsins að það myndi leiða til aukinnar drykkju og þar með áfengistengdra sjúkdóma. Ha, ha … hvílík forpokuð sjónarmið. Eflaust var það óhjákvæmilegt að afnema bjórbannið en hitt stendur að við það jókst áfengisneysla svo sem nú er að birtast í skýrslum lækna um aukna tíðni skorpulifrar.
Sjálfum finnst mér ágætt að fá mér í glas og vil hafa aðgengi að góðu úrvali drykkja. Eins undarlegt og það kann nú að hljóma þá er núverandi fyrirkomulag neytendavænna að þessu leyti en að láta einkaaðila um hituna. Hvort sem það yrðu sérhæfðir sölumenn eða Bónus, Krónan og Nettó eða kaupfélagið þar sem það er enn við lýði, þá yrði úrvalið þar aldrei sambærilegt við það sem gerist hjá ÁTVR sem þar að auki fær sína vöru á hagkvæmum kjörum sökum stærðarinnar.
En sölumennirnir deyja ekki ráðalausir. Þeir vita að á Alþingi er varla meirihluti fyrir því að láta þá stjórna lagasetningunni, þar horfi allir flokkar þótt í mismunandi mæli sé, til ráðlegginga lýðheilsufólks. Þess vegna fara þeir aðra leið: Netverslun!
Bíræfnust er Costco búðin. Þegar hún kom til Íslands vildi hún ráða lagasetningu í landinu enda vön því annars staðar. Við ættum að heimila innflutning á hráu kjöti, og áfengi þyrfti búðin að geta selt.
Þvert á lög býður Costco nú upp á áfengi á netinu og hjörð aðila svipaðs sinnis treður sömu slóð. Verði þetta ekki stöðvað þá hrynur núverandi fyrirkomulag.
Ráðherrar hafa sumir ekki haft vilja, aðrir ekki þrek til að framfylgja lögunum og Alþingi í heild sinni virðist líða best með lokuð augun í værum blundi. Ákæruvaldið og lögreglan sem eiga að framfylgja lögunum virðast hafa skynjað að þarna séu lög sem megi (eða eigi að) hunsa líkt og bannið við áfengisauglýsingum. Framleiðendur og sölumenn áfengis hafa verið látnir komast upp með að hunsa auglýsingabannið og fjölmiðlar, gírugir í auglýsingapeninginn, hafa verið meðvirkir.
En þá spyr ég aftur og nú alla stjórnmálalmenn hvar í flokki sem þeir standa, væri ekki hægt að sameinast um að gera það sem er best?