Fyrirspurn í framhaldi af loforði
Birtist í Mbl
Í fyrravetur fór fram mikil umræða á Alþingi um stóriðjuframkvæmdir og byggingu virkjana á hálendinu norðan og austan Vatnajökuls. Fylgismenn þeirra framkvæmda töluðu um að umhverfisverndarsinnar væru að þyrla upp moldviðri og sökuðu stjórnarandstöðuna meira að segja um málþóf. En þessi umræða var nauðsynleg og - það sem meira er - hún var ákaflega gagnleg.
Hún var m.a. gagnleg vegna þess að þáverandi iðnaðarráðherra gaf mikilvægar, skuldbindandi yfirlýsingar um málið. Þannig gaf iðnaðarráðherra eftirfarandi loforð í umræðum á Alþingi 20. desember 1999: „Ekki verður samið um orku til nýs álvers frá Landsvirkjun nema sá orkusölusamningur skili 5-6% arðsemi eins og eigendur fyrirtækisins hafa lagt upp með.“ Þessa heitstrengingu ítrekaði ráðherrann við framhald umræðunnar daginn eftir og til að ljá orðum sínum aukinn þunga vísaði hann til þess að fleiri ráðherrar í ríkisstjórninni hefðu gefið þetta sama loforð úr sama ræðustóli. Sem er alveg rétt.
En það var fleira sem iðnaðarráðherrann hét þingi og þjóð í þessari umræðu. Mér lék nefnilega mikil forvitni á að vita hvort ráðist yrði í nokkrar framkvæmdir sem tengdust virkjanaáformunum fyrr en endanlegar ákvarðanir um verkefnið lægju fyrir. Undir lok umræðunnar 21. desember gekk ég eftir því að ráðherrann staðfesti að ekki yrðu „hafnar neinar framkvæmdir í Fljótsdal“ fyrr en gengið hefði verið frá samningum um orkusölu og fleira. Og iðnaðarráðherra svaraði vafningalaust: „Þessar yfirlýsingar hafa legið fyrir frá upphafi. Auðvitað verður ekki ráðist í þessar framkvæmdir nema búið sé að semja um alla þætti málsins nema þá að tryggingar ... séu fyrir því að Landsvirkjun verði ekki fyrir neinum skaða af málinu.“
Það þarf ekki að taka það fram að engir samningar hafa verið gerðir um orkusölu eða neina aðra þætti sem snerta stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar á Austurlandi.
Og er þá komið að fyrirspurninni: Af hverju er verið að leggja vegi upp um heiðar með vísan til þess að ef til vill verði reist stífla við Kárahnjúka og búið til uppistöðulón þar á stærð við Hvalfjörð? Af hverju eru hafnar vegaframkvæmdir vegna hugsanlegra þungaflutninga um ósnortin víðerni inni á hálendinu?
Var ekkert að marka loforð iðnaðarráðherrans í þessu máli? Og ef sú er raunin, er þá ástæða til að treysta svardögunum um að ekki verði gerðir nýir samningar um orkusölu til stóriðju nema þeir skili Landsvirkjun svo miklum arði að hægt verði að lækka raforkuverð til almennings um 20-30% eins og ráðherrarnir tóku hvað eftir annað fram í umræðunni?