Fyrirspurn ítrekuð - svar óskast
Birtist í Mbl
Fyrir fáeinum dögum fékk ég birta grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni: Fyrirspurn í framhaldi af loforði. Í greininni var vísað í umræður á Alþingi í desember árið 1999 þar sem iðnaðarráðherra gaf skuldbindandi yfirlýsingar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um framkvæmdir í tengslum við stóriðjuáform.
Iðnaðarráðherra var að því spurður hvort ráðist yrði í virkjanir eða framkvæmdir sem tengdust virkjunum án þess að fyrir lægju samningar um orkusölu. Iðnaðarráðherra svaraði þessu afdráttarlaust og hét því að svo yrði ekki gert.
Þá var hann spurður um fjárhagslegar forsendur hugsanlegra raforkusamninga.
Hann kvað uppúr með það að ekki yrði samið um orku til nýs álvers „nema sá orkusölusamningur skili 5-6% arðsemi ...“ Sagði hann að þetta væri nægilegur arður til þess að lækka raforkuverð til almennings í landinu um 20-30% og yrði það gert.
Í fyrrnefndri grein minni í Morgunblaðinu vakti ég athygli á því að þegar væru hafnar miklar framkvæmdir til undirbúnings virkjunum á svæðinu norður og austur af Vatnajökli án þess að fyrir liggi samningar um raforkusölu.
Ég vil hér með fara þess á leit að núverandi iðnaðarráðherra svari því opinberlega hvort virkilega standi til að svíkja þau loforð sem gefin voru á Alþingi um framvinduna í þessum málum.