FYRIRTÆKI Í REYKJAVÍK SITJI EKKI EIN AÐ HUGMYNDAAUÐ NÁMSMANNA
Í tengslum við nýlega spurningu sem birtist á síðunni, í tengslum við Marel, langar mig að benda á eitt atriði. Hér er ekki um að ræða rekstur sem Marel lagðist í að eigin frumkvæði, heldur keypti Marel upp fyrirtækið Póls - og það gegn þeim skilningi að rekstri á Ísafirði yrði ekki hætt. Það hefur væntanlega verið annaðhvort tímabundið eða ekki samningsbundið, en það er engum dulið að Marel stóð ekki undir væntingum bæjarbúa. Hér er því ekki um að ræða ókost við svonefndan hátækniiðnað, heldur öllu heldur við hið óhefta ofurveldi fyrirtækjanna sem nú virðist vera í tísku. Hvað varðar getuna til að reka fyrirtæki af þessu tagi á Ísafirði má setja upp spurningamerki, en þar er um að ræða atriði sem varða umhverfið á staðnum. Það hefur lengi verið bent á samsvörunina milli velgengni Marel og tengsla þess félags við Háskóla Íslands, og svo aftur slakara gengis Póls sem ekki naut slíkra tengsla. Þetta hefur aftur orðið mörgum Ísfirðingum tilefni til þess að hugleiða mikilvægi þess að stofna þar háskóla svo að fyrirtæki og félög í Reykjavík og nágrenni sitji ekki ein að hugmyndaauð stúdenta. Og þá spyr ég, Ögmundur: Er ekki líklegt til að hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun að koma upp dreifðu neti menntastofnana, í stað þess að beina öllu á einn eða tvo staði á landinu?
Herbert Snorrason
Þakka þér fyrir bréfið Herbert. Ég held að það sé mikið til í því sem þú segir. Hvert skipulagsformið á að vera er svo önnur saga, hvort um á að vera að ræða sjálfstæðar stofnanir eða stofnanir tengdar öðrum háskólum. Þetta er annars vegar spurning um að dreifa menntastofnunum um landið og hins vegar að dreifa ekki kröftunum um of. Þetta tvennt þarf að samræma/sameina.
Kv. Ögmundur