Fara í efni

FYRRVERANDI FLOKKUR - EX-FLOKKUR

Blessaður og sæll Ögmundur.
Allt fram undir að Steingrímur Hermannsson hætti að leiða framsóknarmenn á landsvísu hafði það merkingu að tala um að flokkurinn væri "opinn í báða enda". Þetta þýddi meðal annars að stundum töldu forustumenn framsóknarmanna að þeir þyrftu að vinna með hægri mönnum og stundum var "allt betra en íhaldið" og þá var unnið til vinstri. Tvíeðli framsóknar birtist okkur dauðlegum sem landsbyggðarflokkurinn og sem velferðarflokkur malbiksins. Halldór og Guðni, Hjálmar og Kristinn H., Dagný og Siv. Þetta stingur sér hvarvetna fram. Víðast hvar bjóða framsóknarmenn fram undir merkjum B listans og víða virðast þeir standa sæmilega. Í Reykjavík býður flokkurinn ekki fram undir merkjum B lista heldur undir merkjum ex-B, eða fyrrverandi Framsóknarflokks. Verður ekki að hæla aðstoðarmanni forsætisráðherra fyrir hreinskilnina, að lýsa yfir andláti flokksins fyrirfram. Ex-B, ex-Björn, ex-wife. Þetta er alveg ný útgáfa af tvíeðlinu; Framsókn og ex-Framsókn.
Kveðjur
Stefán