Gædd er grædd rúbbla nýju lífi
Nú á dögum er ekkert grín að brjóta hin æðri rök tilverunnar til mergjar – einkum þann hluta þeirra sem snýr að peningum - , nokkuð annað en áður fyrr á æskudögum Þrándar. Þá gaf Landsbankinn skólabörnum bankabók með 10 krónu innistæðu undir kjörorðinu Græddur er geymdur eyrir. Og ekki nóg með það: bankinn fylgdi þessu ,,markaðsátaki” eftir með því að gefa krökkunum kost á að kaupa sparímerki. Þau átti að líma inn í bók eins og frímerkjasafn og hækka innistæðu í bankanum um leið. Þannig var börnunum kennt á gullaldarmáli að skilja gildi þess að spara. Síðan voru ungmenni beinlínis skylduð með lögum til að spara, hluti af kaupi þeirra var greiddur út í sparímerkjum - sem líka voru límd inn í bækur - en ekki peningum eins og hjá fullorðnara fólki. Hin samfelldi ,,sparnaður” átti að tryggja að ungt fólk ætti eitthvað í sínum handraða, þegar það ,,byrjaði að búa”, eins og upphaf sambúðar stráka og stelpna var kölluð þá. Einföld og auðskilin ráðstöfun æðri máttarvalda í fjármálaheiminum. Nurl hinna smáu varð að dyggð á efsta plani.
Á þessu fyrirkomulagi reyndist smávægilegur galli sem fólst í því að við upphaf sparimerkjaeignar mátti fá átta karamellur fyrir túkall en í besta falli eina að fáum árum liðnum. Í stað þess að græða á því að geyma eyrinn í Landsbankanum, töpuðu nurlararnir nánast hverri krónu, jafnvel á fáum misserum.
Sem betur fer hefur tekist að snúa þróuninni við. Í stað þess að Landsbankinn gefi börnum þjóðarinnar tíkall, gefur þjóðin Landsbankann mönnum sem kunna að gæða þær rúbblur, sem þeir hafa þénað hjá Rússum, nýju lífi. Má því segja að loks sé Rússagullið komið í ljós - en vissulega í óvæntum stað. Nú myndu sumir segja að hér fari Þrándur yfir strikið. Mennirnir borguðu yfir 12 milljarða fyrir helminginn af bankanum og það í dollurum!
Ríkisstjórnin segir að salan hafi verið góður bisniss fyrir þjóðina. Þrándur – sem þó trúir yfirleitt þeim sem fara með völdin – er ekki jafn viss. Efasemdirnar byggjast á því að Landsbankinn hefur birt árshlutareikning fyrir 9 mánuði. Þar kemur fram að bankinn hafi hagnast um ríflega 2,5 milljarða það sem af er árinu og hafi aukið eignir sínar um 91 milljarð á sama tíma. Það má hafa til marks um hvað Þrándur er einfaldur og langt frá að skilja hin æðri rök nútíma fjármála, að honum finnst þetta eitthvað skrýtið og spyr: Haganaður uppá 2,5 milljarða og eingaaukning uppá 91 milljarð? Þýðir það ekki að bankinn sé 93,5 milljörðum ríkari en hann var í upphafi árs? Hefur hann ekki bæði hagnast og eignast? Hver er munurinn á þessu tvennu þegar komið er á efsta plan æðri fjármálavísinda?
Hitt skilur Þrándur ákaflega vel að sala bankans hafi verið góður bisniss – að sönnu fyrir kaupandann en um leið ögn lakari fyrir seljandann, þjóðina. Samkvæmt kokkabókum hinnar einföldu reikningskúnstar hafa nýju eigendurnir á 9 mánuðum eignast helminginn af 93,5 milljörðum, nærri 47 milljarða fyrir 12 milljarða. Eimskip, ÚA, HB á Akranesi og Skagstrendingur fylgja ásamt ýmsu öðru góðgæti í kjölfarið. Þetta dæmi lítur óneitanlega dálítið öðru vísi út en þegar bankinn gaf börnunum tíkall og má af því sjá hvað Þrándur er vondur í reikningi - eða hvað?
Þrándur.