Fara í efni

GÆSAGANGUR Í GARÐABÆ

Í þorskastríðunum fyrr á tíð tókst Íslendingum vel að standa saman. Ekki svo að skilja að alltaf væru allir á sama máli. Síður en svo. Menn deildu um áherslur og stundum leiðir. En í grundvallaratriðum stóð þjóðin sameiginlega að sameiginlegu hagsmunamáli. Þannig hefði það einnig þurft að vera í Icesave deilunni.

Slíkri samstöðu er stundum ruglað saman við hjarðmennsku; að allir gangi í takt. Svona eins og hermenn gera. Þeim er uppálagt að hlýða öllum fyrirskipunum möglunarlaust; gera einsog þeim er sagt. Sagan kennir að þannig sé hægt að láta þá framkvæma nánast hvað sem er.

Ég fylgdist einu sinni með þjálfun hermanna í Bretlandi. Í fyrstu skildi ég ekki hvernig stóð á því að foringinn öskraði allar fyrirskipanir sem hermennirnir síðan framkvæmdu á augabragði. Síðar var mér sagt að hermennska snerist um einmitt þetta, að fá menn til að hlýða viðstöðulaust; fara að fyrirmælum hugsunarlaust, sem viðbragð við skipun.

Svo er að skilja á Samfylkingarfélagi Garðabæjar að þannig eigi þetta að vera í pólitíkinni líka; að allir gangi í takt og fari að fyrirskipunum. Þá gangi allt vel. Í ályktun sem félagið sendi frá sér um Icesave málið í nýliðinni viku, segir að Samfylkingin í Garðabæ hvetji þingmenn VG til þess "að taka þingflokk Samfylkingarinnar sér til fyrirmyndar og ganga í takt og í samræmi við ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, öllum til heilla."

Nú er það svo að innan VG hefur verið prýðileg samstaða um þau grunngildi sem hreyfingin hvílir á. Hvað ríkisstjórnarsáttmálann áhrærir þá kappkosta menn að virða hann jafnframt því sem hann er mátaður inn í þessi grunngildi. Í þessu er þó ekki allt klippt og skorið frekar en lífið sjálft. Oft þarf að beita dómgreind og pólitísku mati þegar einstök mál koma upp. Síðan er því ekki að leyna að við búum við ákveðna mótsögn í samþykktum okkar og starfi. Annars vegar erum við með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn inni á gafli án þess að fyrir þeirri staðreynd sé klappað kvölds og morgna innan stjórnarflokkanna. Af fúsum og frjálsum vilja er svo á dagskrá að vera sú velferðarstjórn sem við lofuðum landsmönnum, í anda þess sem best gerist á Norðurlöndum. Þess vegna tilvísan í norræna velferðarstjórn í stjórnarsáttmálanum. Í þessu tvennu, faðmlaginu við AGS og norrænu velferðarmarkmiðunum er fólgin sú mótsögn sem ríkisstjórnin reynir eftir bestu getu að takast á við. 

Velferðarmarkmiðin eiga að vera okkur skýr vegvísir. Við vitum að það kostar staðfestu og þrotlausa vinnu að ná þessum markmiðum svo vel sé. Það gerist ekki í einu vetfangi og ekki með neinum gassagangi, hvað þá gæsagangi. Fyrirskipanapólitíkin með sínu samræmda göngulagi er meira í ætt við vinnulag Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra sem hann starfar fyrir, en þá seiglu sem velferðaruppbyggingin kallar á.

Hlýðni og undirgefni, hugsunarlaus viðbrögð við skipunum, er einmitt sú meinsemd sem varð völd að efnahagshruninu sem við súpum nú seyðið af. Má ég frekar biðja um fulla meðvitund og vakandi dómgreind - jafnvel þótt það þýði eitthvert misræmi í göngulagi endrum og eins.