Fara í efni

GAGNLEGT EÐA …?


Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 03/04.07.21.
Ekki fer úr huga mér frétt sem ég las nýlega í blaði um að Mannréttindadómstóllinn í Strassborg hefði beitt þeirri niðurstöðu sem hann á dögunum komst að í frægu (að endemum) máli gegn íslenskum stjórnvöldum um skipan í embætti dómara við Landsrétt sem fordæmi gagnvart stjórnvöldum í öðru landi, að þessu sinni Póllandi.

Íslenska málið var mörgum illskiljanlegt en svo átti að heita að tilteknir dómarar hefðu ekki verið skipaðir lögum samkvæmt og að ráðherra hefði þar ráðið of miklu. Látum vera ef aðfinnslan hefði verið gerð fyrir hálfum öðrum áratug þegar dómsmálaráðherra skipaði dómara – einn síns liðs. Allt var það þó lögum samkvæmt.
En síðan var lögunum breytt og ákveðið að þrír aðilar kæmu að ráðningu dómara, matsnefnd, ráðherra og Alþingi sem hefði síðasta orðið. Þetta þótti mér og þykir enn hinn besti kokteill, reynt að koma í veg fyrir klíkuveldi þeirra sem gjarnan raðast saman í matsnefndir og svo einnig spornað gegn geðþóttavaldi ráðherra en þverpólitískt Alþingi væri síðan varnaglinn. Til þess að kokteillinn hrifi yrðu allir málsaðilar að sjálfsögu að standa sig en deila má um framgöngu þeirra allra. Gagnrýnin sem fram kom var til góðs og slípar án efa þetta fyrirkomulag til framtíðar.  En óháð því hvað hverjum og einum þótti um ágæti niðurstöðunnar þá var málið til lykta leitt í hinu lögbundna ferli og um það fyrirkomulag hafa engar athugasemdir komið fram.   

Í Strassborg þótti ástæða til að leggjast yfir þetta mál með stækkunargleri. Mannréttindadómstóllinn, sem þar hefur heimilisfesti, hefur því miður reynst illa sjáandi í sumum þeim ríkjum sem að honum standa. Hann gerðist hins vegar mjög smásmugulegur gagnvart skipan í hinn nýstofnaða íslenska Landsrétt og fann það út að skort hefði á að forms hefði verið gætt sem skyldi við ráðningu dómara og þegar íslenskum lögmanni hugkvæmdist að spyrja dómstólinn álits á því hvort skjólstæðingur hans, sem ekið hafði undir áhrifum eiturlyfja, verið fundinn sekur á öllum dómstigum og auk þess játað brot sitt, hvort það gæti verið að mannréttindi hans hefðu ekki fengið að njóta sín til fulls því dómari sem dæmt hefði í máli hans á einu dómsstigi hefði ekki hlotið blessun í Strassborg. Sérstök yfirnefnd hempuklæddra dómara  lagðist nú yfir málið um nokkurt skeið, með tilheyrandi kostnaði enda allir innandyra vel haldnir á þeim bænum. Niðurstaðan varð sú að mannréttindi hins dópaða ökumanns hefðu ekki verið virt ef þá ekki beinlínis fótum troðin.

Var nú farið að huga að því hvernig handhafar réttlætis þar syðra gætu í samráði við góða félaga á Fróni reist mannréttindin við.

Í þessu skyni hefur nú tvennt gerst. Fjöldi einstaklinga sem hlotið hafa dóm á Íslandi – ekki síst fyrir svokallaða hvítflibbaglæpi – hafa fengið þann úrskurð í Strassborg að þeir hafi verið ranglega dæmdir, ekki vegna þess að þeir séu saklausir af lögbrotum sem borin voru upp á þá og þeir dæmdir sekir fyrir, heldur vegna fyrrnefndra eða ámóta formgalla við meðferð mála þeirra. Í kjölfarið höfum við – íslenskir skattgreiðendur verið krafðir um skaðabætur – og Bjarni fjármálaráherra hefur borgað þær sem eins konar miskabætur fyrir “mannréttindabrotin”.

Erum við þá komin að síðara atriðinu sem rekja má til málatilbúnaðar Evrópudómstólsins gagnvart Íslandi. Í Póllandi er ríkisstjórn sem vill að dómstólarnir dansi eftir sinni flautu, gripið til ráðstafana til að bola dómurum úr embætti og koma sínum mönnum að, reynt að hafa áhrif á úrskurði þvert á landslög og þar fram eftir götunum.

Það var gegn þessu framferði sem Landsréttarmálið íslenska var vakið upp sem fordæmismál og það nú lagt að jöfnu við fasísk vinnubrögð pólskra stjórnvalda þegar Mannréttindadómstóllinn tók fyrir fruntalegar breytingar pólskra stjórnvalda á réttarkerfinu.

En viti menn. Misnotkun á mannorði Íslands með þessum hætti þótti ekki meira mál en svo að formaður Dómarafélags Íslands sá ástæðu til að fagna í viðtali sem Fréttblaðið átti við hann í kjölfar dómsins gegn pólskum yfirvöldum: “Niðurstaðan í pólska málinu staðfestir enn frekar að með dómi sínum í Landsréttarmálinu hefur Mannréttindadómstóllinn sett fordæmi sem mun orka sem prófsteinn á það hvort skipan dómstóls uppfylli það skilyrði að vera ákveðin með lögum.”

Hvert er þessi röksemdafærsla öll að fara? Mál ógæfusama ökumannsins sem ók undir áhrifum er nýtt við alls óskyldan þvott á hvítflibbum í Strassborg og huglaus dómstóll þar tekur sér til handargagns íslenskt álitamál þegar andæfa þarf alls óskyldum fasískum vinnubrögðum austur í Póllandi.
Þess vegna er spurt í fyrirsögn hvort þetta sé virkilega gagnlegt. Ég hallast að því að svo sé ekki, nær því að vera galið eða ga ga eins og sagt var á mínum unglingsárum.