Gagnrýni Davíðs Oddssonar vísað á bug
Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er nú greinilega orðinn hræddur um að valdaseta flokksins í Stjórnarráðinu sé á enda. Þá er gripið til gamalkunnugs bragðs og það er að beita hræðsluáróðri. Verði mynduð vinstri stjórn þá brenni sparifé landsmanna upp í óðaverðbólgu. Þetta staðhæfir Davíð Oddsson án þess þó að þetta eigi við nokkur rök að styðjast. Það erum við vinstrimennirnir sem hvetjum til varfærni og yfirvegunar í efnahagsmálum, vörum við óráðsíu, vörum við því að ofkynda efnahagskerfið og setjum fram tillögur um stefnu í efnahags- og atvinnumálum sem er til þess fallin að stuðla að festu og stöðugleika. Vinstrihreyfingin grænt framboð fer ekki að dæmi miðjuflokkanna Framsóknarflokks og Samfylkingar með yfirboð, nú síðast 15 milljarða sem Halldór Ásgrímsson segir muni detta af himnum ofan í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Ekki er mér kunnugt um að nokkur hagfræðingur skrifi upp á bókhaldskúnstir Framsóknarflokksins.
En aftur að yfirlýsingum Davíðs Oddssonar. Síðast var mynduð vinstri stjórn á Íslandi árið 1988. Stjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafði þá sundrast og við tekið ríkisstjórn Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Famsóknarflokks. Sú stjórn sat til loka kjörtímabilsins og tókst margt ágætlega. Á þessum tíma var óðaverðbólga í landinu en með vítæku samstarfi við samtök á vinnumarkaði tókst að stöðva verðbólguhjólið og skapa grundvöll fyrir uppbyggingarstarf. Þetta hafði tekist þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. Hann þarf því að vanda sig betur við upprifjun sögunnar, sérstaklega ef hann ætlar að draga af henni lærdóma. Og varðandi Sjálfstæðisflokkinn þá skyldi sá flokkur tala varlega þegar kemur að því að gefa öðrum einkunn fyrir frammistöðu í efnahagsmálum. Staðeyndin er sú að á undanförnum árum hefur verið uppsveifla í efnahagsmálum á Vesturlöndum og hefur hún skilað sér inn í samfélög í þessum heimshluta í minnkandi atvinnuleysi og auknum kaupmætti. Það hefur síðan verið komið undir stjórnvöldum í hverju landi fyrir sig hvernig til hefur tekist um skiptin en hvað þetta snertir hefur reynslan af verkstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1991 ekki verið góð. Stór göt hafa verið rifin á félagslega öryggiskerfið, biðlistar eftir leiguhúsnæði hafa aldrei verið lengri hér á suðveturhorninu, tilkostnaður einstaklinga við heilbrigðisþjónustu hefur stóraukist og kjaraþróun aldraðra, öryrkja og láglaunafólks er ekki í nokkru samræmi við hátekjustéttirnar sem Sjálfstæðisflokkrurinn hefur nostrað við.
Það er greinilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að hressa upp á sögukunnáttu sína áður en hann reynir næst að nota söguna málstað sínum til framdráttar.