GAGNRÝNIN ÆTTI AÐ BEINAST AÐ ÞJÓÐINNI, EKKI FORSETANUM
10.04.2011
Niðurstaða liggur fyrir úr þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave. Sú niðurstaða er afdráttarlaus. Upp úr stendur tvennt.
Í fyrsta lagi er það staðreynd að umræðan um Icesave hefur aldrei verið eins á dýptina og í aðdraganda kosninganna. Þetta þýðir að þjóðaratkvæðagreiðsla er vel til þess fallin að varpa ljósi á flókin mál.
Í annan stað er augljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla er komin til að vera, slíkur var áhuginn og síðan þátttaka í kosningunni. Ég er ekki í vafa um að beint lýðræði er aðferð 21. aldarinnar.
Gagnrýni í garð forseta Íslands vegna ákvörðunar hans um að vísa Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu er ómakleg. Forsetinn var einfaldlega að bregðast við þjóðarviljanum. Ég heyrði ekki betur en að í tillögum - eða drögum að tillögum - um breytingar á stjórnarskrá væri kveðið á um að 15% kjósenda ættu að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þessu tilviki skoraði nærri 20% kjósenda á forsetann að vísa Icesave til þjóðarinnar. Gagnrýnendur ættu því að beina spjótum sínum að þjóðinni - ekki forsetanum.
Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta, fórst fréttamannafundur á Bessastöðum í dag vel úr hendi þar sem hann meðal annars mæltist til þess við forsvarsmenn á vinnumarkaði að tala atvinnulífið upp en ekki niður eins og hefði viljað brenna við. Þá minnti hann á að í þrotabúi Landsbankans væru miklar fjárhæðir til ráðstöfunar til þeirra sem glatað hefðu eignum við hrun Icesave, þannig að allt tal um að „ekki ætti að borga" væri út í hött. Þetta eru rök sem við vissulega þekkjum vel og svo hitt að átökin hafa staðið um vexti, skiptingu þrotabúsins og svo hvort og þá í hvaða mæli ætti að veita Bretum og Hollendingum lögvarinn rétt til að seilast ofan í vasa íslenskra skattborgara.
Sjá hér: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4578118/2011/04/10/