Fara í efni

GALIÐ RÚV FRUMVARP HLEÐUR UNDIR GUNNLAUG SÆVAR

Formaður Útvarpsráðs er Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson. Mér skilst að hann sé sjálfstæðismaður af frjálshyggjugerðinni. Slíkir menn eru almennt á móti ríkisstofnunum nema náttúrlega að þeir fái þær til að ráðskast með. Og Ríkisútvapið fól Sjálfstæðisflokkurinn Gunnlaugi Sævari í hendur. Þetta er sami stjórnmálaflokkur og segist vera á móti ríkisrekstri! Það er margt grínið.
Nú er komið fram frumvarp sem sennilega er það algalnasta sem fram hefur komið á Alþingi í langan tíma. Ég ætla að láta bíða betri tíma að fara nánar í saumana á því; á hvern hátt það vegur að réttindum starfsmanna og veikir stofnunina í menningarlegu tilliti. Ég ætla hér að láta nægja að staðnæmast við formann Útvarpsráðs einan. Hann er greinilega mjög reiður yfir ráðningu nýs fréttastjóra á RÚV – eftir að óskabarn ríkisstjórnarinnar afþakkaði embættið - og vill kalla hann inn á sitt teppi. Samkvæmt Fréttablaðinu vill formaður Útvarpsráðs nú svör við fréttastefnu nýs fréttastjóra.

Gott og vel. Aldrei er slæmt að ræða málin. Vandinn er sá að umræddur formaður sem svona bregst við og talar er fulltrúi flokks sem þykist vera á móti ríkisafskiptum. Það má til sanns vegar færa en þó aðeins þegar aðrir eiga í hlut. Þegar hins vegar Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur eða fulltrúar hans hafa forræði yfir ríkisstofnunum og fá því þar af leiðandi við komið að fara sínu fram, eru menn kallaðir á teppið.

Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er áfram gert ráð fyrir því að ríkisstjórnarmeirihlutinn á Alþingi skipi í stjórn RÚV. Það sem meira er, ríkisstjórnarmeirihlutinn á að ákveða hvernig fréttastofan starfar, það er að segja, samkvæmt hvaða reglum og skilmálum. Ég hvet lesendur til þess að kynna sér frumvarp ríkisstjórnarinnar, klæðskerasniðið fyrir Gunnlaug Sævar og félaga hans í Útvarpsráði svo þeir geti samkvæmt laganna bókstaf kallað forsvarsmenn Fréttastofu útvarps inn á sitt teppi. Nú kann það að vera umdeilanlegt hversu langt forrræði stjórnmálamanna eigi að ná, en næði frumvarp ríkisstjórnarinnar fram að ganga væri það beinlínis lagaskylda Gunnlaugs Sævars og félaganna úr SUS og Varðbergi að ritstýra fréttastofum Ríkisútvarpsins. Viljum við það? Ekki ég.
Sjá nánar stjórnarfrumvarpið hér. Í þessu samhengi vek ég sérstaklega athygli á 8. og 9. gr.:  http://www.althingi.is/altext/131/s/0974.html