GAMALDAGS FRJÁLSHYGGJUTUÐI GERT HÁTT UNDIR HÖFÐI
Gott er að sjá að heimasíðan er aftur komin í gang en aldrei þessu vant kom ekkert inn á hana í nokkra daga. Ég man ekki eftir því að áður hafi þetta gerst! Ég saknaði þess að sjá ekki ný skrif á ogmundur.is, því það er orðin föst rútína hjá mér að opna síðuna með morgunkaffinu.
Hvað um það, þá er eitt sem veldur mér heilabrotum og hlýtur svo að eiga við um fleiri. Út kom skýrsla formanns matvælaverðsnefndar eins og alþjóð veit. Að baki henni stóð hann einn en ekki nefndin sem hann stýrði. Hins vegar fóru nefndarmenn og fulltrúar þeirra samtaka sem að baki þeim standa að tjá sig um málefnið. Skyldi vera jafnræði með þeim og sjónarmiðum þeirra gert jafnhátt undir höfði í fjölmiðlum? Aldeilis ekki. Þeir sem hafa uppi gamla frjálshyggjutuðið er gert mun hærra undir höfði en hinum sem vilja horfa til gæða og matvælaöryggis og annarra þátta sem eiga erindi inn í framtíðina. Þannig heyrðum við varaforseta ASÍ tala fyrir hönd markaðshyggjunnar í fyrstu frétt í hádegisfréttum RÚV, síðan kom háskólakennari í kvöldfréttum og talaði sama máli en ekki var orði vikið að þeim sjónarmiðum sem fram komu í Morgublaðsgrein þinni í dag Ögmundur þar sem þú skýrir afstöðu og aðkomu BSRB. Að mínu mati var þar á ferðinni mun áhugaverðari nálgun á málið. Annars er veðrið svo gott að það er varla þess virði að ergja sig á þessu.!
Grímur G.
Þakka þér bréfið og hlý orð í garð síðunnar. Svo bar til að ég fór í nokkurra daga útreiðatúr í síðustu viku og átti því ómögulegt að komast í tölvu, sem skýrir hvers vegna heimasíðan stóð óhreyfð. Ætla reyndar að fara norður yfir Kjöl um helgina þannig að aftur kemur nokkurra daga pása. Varðandi fréttaflutning af matvælanefndinni þá er það að segja að gagnstæð sjónarmið hafa komið fram í flestum fjölmilðum þótt ég sé sammála þér að nokkuð halli á í sumum þeirra eins og þú nefnir. Sammála þér varðandi góða veðrið og góða skapið. Gleðilegt sumar!
Með kveðju,
Ögmundur