Gargandi snilld Hannesar eða barasta rugl?
Þegar ég les hinn þröngsýna, að ekki sé sagt hinn barnalega, málflutning Hannesar G. Sigurðssonar rifjast upp fyrir mér lokaritgerð ein í hagfræði frá Háskóla Íslands sem fjallaði um efnahagsástand á Íslandi fyrir landnám. Höfundurinn komst m.a. að þeim athyglisverðu niðurstöðum að jafnvægi hefði ríkt í þjóðarbúskapnum, verðbólga hefði engin verið og fullkominn viðskiptajöfnuður við útlönd. Og meginskýringarnar á þessu afbragðsástandi voru tvær að dómi höfundar; annars vegar frjáls markaðsbúskapur og hins vegar fullkomin fjarvera ríkisvalds hér á landi og þar með opinberra starfsmanna. Fljótt á litið er ritgerðin auðvitað ekkert annað en gargandi snilld en hugsanlega hefði þó mátt draga fram fáeina fleiri þætti til skýringar á hinni fullkomnu kyrrð í efnahagslífinu fyrir landnám. En auðvitað er það gild regla hjá öllum góðum fræðimönnum að takmarka sig og vera ekki með neinar óþarfa málalengingar. Og þó að ég tilheyri ekki okkar ágætu fræðimannastétt þá set ég hér með punktinn yfir i-ið, að sinni að minnsta kosti.
Þjóðólfur