GEFANDI SAMRÁÐ
06.04.2009
Troðfullt var út úr dyrum í fundarsölum BSRB þegar trúnaðarmenn innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB komu til samráðsfundar með heilbrigðisráðherra í dag. Fundurinn var afar gagnlegur fyrir mig og vonandi einnig trúnaðarmennina sem komu með óteljandi ábendingar og úrræði. Athygli vakti að fólk kom á fundinn úr öllum landshlutum.
Trúnaðarmenn kröfðust kjarajöfnunar, vöruðu við útboðum sem iðulega væru ávísun á kjararýrnun; sýnt var fram á að fækkun starfa þýddi útgjöld á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Eða væri betra að vísa heilbrigðisstarfsmanni úr vinnu og þröngva honum á atvinnuleysisbætur? Allir sem til máls tóku voru á því máli að ekki væri hjá því komist að draga saman seglin og vildu samráð og meira samráð. Svo lengi sem ég fæ einhverju ráðið verður orðið við þeirri ósk. Enda rímar sú ósk við mína eigin. Þess vegna var boðað til fundarins.
http://www.bsrb.is/um-bsrb/frettir/nr/1501/
http://efling.is/efling/frettir/?cat_id=22679&ew_0_a_id=322458