GEGN PÓLITÍSKUM RÉTTTRÚNAÐI
Sæll Ögmundur
Hlustaði á viðtalið þitt á Harmageddon og kom mér skemmtilega á óvart að einhver málsmetandi á Íslandi sé fær um að sjá í gegnum málatilbúnað USA og UK í Sýrlandi. Það sem ég hef þó meiri áhuga á hér úr þessu viðtali er að þú bendir á það að Nató hafi gefið Tyrkjum grænt ljós á hertar aðgerðir gegn Kúrdum. Þar sem við erum hluti af Nató að þá höfum við nú látið óátalin morð á væntanlega hundruðum ef ekki þúsundum Kúrda. Ekki orð um það frá Utanríkisráðuneyti Íslands. Nú hins vegar er búið að draga okkur á asnaeyrunum inn í kalt stríð við Rússa og þar eru öfgakennd viðbrögð Breta og Bandaríkjamanna og fleiri Natóríkja vegna einungis tveggja einstaklinga. Hér er um að ræða meinta árás Rússa þar sem sannanir liggja ekki óyggjandi fyrir og gætu eins verið tilbúningur Breta eins og Rússar saka þá um. Hvað með alla Kúrdana sem í skjóli Nató eru ekki bara sendir á sjúkrahús í coma heldur raunverulega drepnir og ekki bara tveir heldur þegar yfir lýkur munu skipta í það minnsta þúsundum. Við getum sjálfsagt ekki boðið hugsanlegum samsærum Nató byrginn en við ættum í það minnsta ekki að blanda okkur formlega í þær deilur á þeirra forsendum heldur okkar eigin. Þessari hlið mætti velta upp í umræðunni þar og bjóða hinum pólitíska rétttrúnaði byrginn hér eins og þú hefur einmitt svo réttilega gert um málefni Sýrlandstríðsins.
Virðingafyllst,
Bjarki Ágústsson