Fara í efni

GEIR, "ANDLAGIÐ" OG ATHUGASEMD VIÐ FRÉTTABLAÐSLEIÐARA

Í dag kvaddi ég mér hljóðs á Alþingi og beindi fyrirspurn til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, vegna einkavæðingar orkulindanna. Sem kunnugt er hefur borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík verið að skjóta eignum borgarbúa til fjárfesta á markaði með vægt sagt vafasömum hætti. Fyrir mitt leyti er ég nú farinn að skilja hvers vegna peningamenn telji það vera helsta ókost opinbers reksturs hve svifaseinn hann sé miðað við ákvarðanatöku á fjármálamarkaði. Auðvitað þykir bröskurum ekki nógu gott þegar málin eru rædd rólega og af yfirvegun. Og gangsæi er þeim eitur í beinum. Hraðinn og ógagnsæið eru nefnilega lykilatriði þegar fara á bak við félaga og samstarfsmenn og taka eigingjarnar ákvarðanir í flýti. Dulúðin sem bisnissmenn hafa verið að reyna að búa til í kringum hraðvirkar ákvarðanir á markaði ristir nú ekki dýpra en þetta!
Aftur að Alþingi. Þar rakti ég í dag hvernig einkavæðingarspírallinn ætti upptök sín í ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um að selja hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja og ákvörðun núverandi stjórnar að neita að hætta við söluna – þrátt fyrir hvatningu og ítrekaðar áskoranir. Forsætisráðherra var inntur eftir því hvað ríkisstjórnin ætlaði að aðhafast í þessu máli – eða hvort hún ætlaði að horfa aðgerðarlaus á að þjóðin glataði auðlindum sínum. Eitthvað á þessa lund hljómaði málflutningur minn.

Forsætisráðherra svaraði því til að hann gæti "tekið undir eitt og eitt sjónarmið hjá hv. þingmanni hvað þetta varðar að auðlindirnar sjálfar, sem eru í almannaeigu í dag, eiga ekki endilega að vera andlag einkavæðingar."
Hvað þýðir þetta á mannamáli? Geir H. Haarde er að segja að orkulindirnar eigi "ekki endilega" að einkavæða. Þær eigi ekki að vera viðfangsefni einkavæðingar. Ekki "endilega". Hvað þýðir það? Eiga þær kannski að vera "andlag einkavæðingar"? Svo er að skilja. Það kemur með öðrum orðum vel til greina! Eru ef til vill uppi áform um slíkt? Hvers vegna þetta loðna og heldur aulalega orðalag? Svona talar maður sem vill drepa umræðunni á dreif. Skyldi þetta þykja traustvekjandi framganga hjá verkstjóra í ríkisstjórn sem kosin var til að gæta hagsmuna þjóðarinnar? Eða hvað? Eru það kannski hagsmunir annarra sem forsætisráðherrann vill gæta? Er það peningafólkið sem Geir er að gæta; fólkið sem eina ferðina enn er að fá milljarða af almannafé á silfurfati?

Einn misskilning þarf að leiðrétta í leiðaraskrifum Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu um þessi mál. Í leiðara 6. október segir hann að samþykkt hafi verið að taka Orkuveituna "undan almennum reglum stjórnsýsluréttarins" og setja hana "undir leikreglur einkamarkaðarins," að beiðni þáverandi meirihluta í Reykjavík. Þetta hafi verið gert með "samstöðu allra flokka á Alþingi."  Vel má vera að þingmenn úr öllum flokkum hafi samþykkt lagabreytinguna. Þetta var hins vegar þrautalending sem þingmenn VG voru ósáttir við en töldu þó skömminni skárri niðurstöðu að gera OR að sameignarstofnun en að gera hana að hlutafélagi einsog tillögur Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknar gengu út á. Þorsteinn Pálsson fór í sjálfu sér ekki með rangt mál en hann leggur rangan skilning í þá niðurstöðu sem varð hvað snertir pólitíska samstöðu um rekstrarform Orkuveitu Reykjavíkur.