GEIR HITTIR ALLA HELSTU GÆJANA !
Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom fram í Silfri Egils í dag í því sem kallað hefur verið „drottningarviðtali". Það heiti hefur verið haft um viðtöl þar sem stjórnmálamenn, sem líta á sig sem prímadonnur, fá að sitja einir ásamt stjórnanda og láta ljós sitt skína. Stundum kunna slík viðtöl að eiga rétt á sér en þá þarf líka að passa upp á jafnræðið, þannig að ráðherrastóll verði ekki ávísun á drottningarviðtal en stjórnarandstæðingar þurfi svo aftur að sætta sig við að vera settir skör lægra.
Hvað um það. Geir var bara ánægður með sig í þættinum. Sagði Agli að hann væri að fara til Brussel fljótlega. „Ég mun hitta alla helstu gæjana", sagði Geir hróðugur. Svo taldi hann þá upp, Evrópusambands-bírókratana og forsvarsmenn NATÓ - hann myndi ræða við sjálfan framkvæmdastjórann! Þetta verður örugglega óskaplega skemmtilegir fundir hjá okkar manni með „gæjunum" í Brussel.
Geir vill að Alcoa ráði!
Öllu alvarlegra þótti mer að hlíða á forsætisráðherra Íslands fríja sig ábyrgð í virkjana og stóriðjumálum. Aðspurður um afstöðu til álversframkvæmda í Helguvík kvaðst forsætisráðherrann ekki ætla „að taka sér það vald„ að ákveða slíkt, þetta væri ákvörðun hlutaðaeigandi fyrirtækis. Stjórnvöld eiga ekki að ákveða hvar og hvenær álver skuli rísa, sagði Geir H. Haarde. „Það er Alcoa og þær opinberu stofnanir sem setja reglurnar sem eiga að finna niðurstöðuna."
Um raforkulögin var svipað uppi á teningnum. Þar vildi forsætisráherra greinlega fríja sig ábyrgð. þetta eru bara lög sagði hann. það má alltaf breyta þeim aftur með nýjum lögum! Það er nú það. Lög sem snerta eignarhald geta haft afdrifaríkar afleiðingar.
Ríkisstjórnarflokkunum ber að verja þjóðarhag
Annars er þetta dæmigert fyrir Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu: Öllu reyna þessir systurflokkar í ríkisstjórn að koma út á markað, heilbrigðiþjónustunni, launamyndun hjá hinu opinbera, raforkunni og annarri þjónustu. Síðan er viðkvæðið að stjórnvöld beri enga ábyrgð, það sé bara við markaðinn að sakast ef einhver sé óánægður, menn skuli þá snúa sér til fyrirtækjanna, Alcan og Alcóa, Öldungs hf og Heilsuverndarstöðvarinnar ehf. En er þetta rétt? Er það svona sem við viljum hafa þetta? Vitaskuld ekki! Að sjálfsögðu eiga Alcoa og önnur stóriðjufyrirtæki ekki að ákveða hvernig við nýtum okkar takmörkuðu orku. Það er sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að taka ákvarðanir sem snerta þjóðarhag og það er þeirra sem veljast í forsvar okkar sem samfélags og þjóðar að standa vaktina fyrir okkur öll. Ríkisstjórnir eiga ekki að sitja uppi í stúku og fylgjast með því hvað peningafólki þóknast að gera landi okkar og samfélagi.
Hér er slóðin á Silfur Egils þar sem þessi mál bar á góma fyrst í samræðu milli mín, Illuga Gunnarssonar og Katrínar Júlíusdóttur. Síðar mætti Geir í umrætt drottningarviðtal og að lokum var rætt við Stefán Jón Hafstein: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4366866