GERUM ÍSLAND HEILT Á NÝ
Á samfélagsmiðlum sé ég að menn leggja mismunandi skilning í uppsláttarfyrirsögn DV þar sem vísað er í viðtal við mig inni í blaðinu. (Nú er búið að birta viðtalið í heild á vefsíðu, sjá slóð að neðan.) Þar er ég spurður út í fundi mína um kvótakerfið. Eins og fram hefur komið og á enn eftir að koma fram - því fundirnir eru rétt að hefjast - hef ég fengið Gunnar Smára Egilsson, blaðamann, með mér til fundahalda undir þessari fyrirsögn, sem reyndar er botnuð: Kvótann heim.
Það þýðir í fyrsta lagi að auðlindin eigi að nýju að verða þjóðarinnar, ekki bara í orði heldur líka á borði. Í öðru lagi er átt við að nýting sjávarauðlindarinnar með framseljanlegum kvóta, sölu, leigu og veðsetningu í einakþágu, hefur á marga lund brotið samfélagið, valdið byggðaröskun, misskiptingu og leitt til spillingar. Nú sé verkefnið að gera brotið samfélag heilt á ný.
Flestir eiga tiltölulega auðvelt með að skilja þessa hugsun.
Þó hef ég orðið var við að ýmsir, sem vilja mér vel, ætla mér stærri hugsun en ég var fær um að sjá, nefnilega að ég hefði sótt þetta orðalag í smiðju Trumps, forseta Bandaríkjanna, sem að eigin sögn vill gera Bandaríkin að drottnandi stórveldi sem aldrei fyrr: “Make America great again”, er viðkvæðið hjá honum. Svona stórfenglega hugsa ég ekki fyrir Íslands hönd þótt ég vilji landi okkar allt hið besta! En svona er það þegar manni eru ætlaðir stórir draumar.
Annars er eitt sem orkar tvímælis í að öðru leyti ágætri framsetningu DV, og það er að ég hafi sagt mig úr VG, þeim stjórnmálaflokki þar sem ég hef verið skráður frá stofnun. Svo er ekki. Ég hef hins vegar haslað mér völl fyrir umræðu um pólitík og þjóðfélagsmál sem stendur utan þess flokks og reyndar allra flokka – allra stofnana. Inn a þann völl hefur för minni markvisst verið heitið frá því ég yfirgaf Alþingi haustið 2016. Í þessari nýju heimsmynd minni gegna stjórnmálaflokkar einfaldlega sífellt minna hlutverki.
Ég vonast hins vegar til að geta orðið þeim að liði sem í alvöru vilja standa til vinstri í stjórnmálum, vilja bæði jöfnuð og lýðræði og jafnframt vernda lífríkið fyrir ágangi óseðjandi græðgi kapítalismans.
Sú pólitík er umhverfisvæn og vinstrisinnuð – rauð og græn á litinn. Með þeirri pólitík hef ég staðið og geri enn.
Hér eru slóðir á áður bira tvo hluta viðtalsins í DV en hér efst er búið að birta viðtalið í heild:
https://www.dv.is/frettir/2020/1/31/politikin-er-lifstidardomur-en-audveldur-afplanunar/