GERUM TILRAUN UM HANDFÆRAVEIÐAR VIÐ GRÍMSEY
Ég hef verið að reyna að vekja máls á tveim þáttum, sem tengjast byggðamálum. Annars vegar um þrætueplið um það, hvort frjálsar handfæraveiðar geti skaðað fiskistofna og hins vegar um hnignandi byggð í Grímsey, en með litlum árangri hingað til.
Varðandi hið fyrra atriði er mikið um fullyrðingar á báða bóga, annars vegar á vegum bátasjómanna og þeirra félagasamtaka og hins vegar á vegum stórútgerðarinnar.
Með tilhlýðilegri virðingu fyrir reynsluboltum meðal sjómannastéttarinnar liggur í augum uppi að reynslunni sé fylgt eftir með vandaðri rannsókn, sem mér er ekki kunnugt um að hafi verið gerð hér á landi eða annars staðar, svo undarlegt, sem það nú er.
Í þessu sambandi þarf að hefja slíkt verkefni sem fyrst og alveg upplagt að það færi einmitt fram umhverfis Grímsey og slá þannig tvær flugur í einu höggi, fá úr þrætum þessum skorið og koma byggðinni í Grímsey til bjargar í leiðinni.
Í því sambandi er nauðsynlegt að útgerðarmenn í eynni verði hafðir með í ráðum í verkefnisstjórninni og hafi forgang um veiðar í verkefninu.
Þetta fyrirkomulag er byggt á dapri reynslu eyjarskeggja um slæleg vinnubrögð við að koma á sértækum veiðiheimildum við Grímsey, þar sem mönnum úr öðrum plássum hefur verið leyft að nýta sér mjög svo takmarkaðan kvóta heimamanna að lítið hefur orðið eftir handa þeim og byggðin komin í heljarþröm (Byggt á frásögn útgerðarmanns þar).
Æskilegt væri að þjóðin fengi að fylgjast vel með framgangi vekefnisins.
Út frá niðurstöðu verkefnisins, sem trúlega yrði að standa yfir í tímabil sem samsvarar a.m.k. einni kynslóð þorsks, yrðu síðan framtíðarveiðar byggðar við Grímsey og annars staðar, eftir atvikum.