HVAÐ MUN SEGJA Í SKÝRSLUNNI?
Það er gleðilegt þegar stigin eru skref til þess að byggja upp velferðarsamfélagið. Það var það sem ég hugsaði þegar ég heyrði fréttir af tillögu að fjárframlögum heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var af ríkisstjórninni um daginn. Tillagan hljóðaði upp á 150 milljónir á einu og hálfu ári.
Það er full ástæða til þess að vera ánægður með mörg meginmarkmiða þessarar áætlunar, eins og að greiða leið ungs fólks að geðheiðlbrigðisþjónustu og aukin samvinna út um landið. En er ástæða til þess að vera uggandi um ágætið þegar markmið áætlunarinnar eru skoðuð frekar á heimasíðu heilrigðisráðuneytisins? Eitt þeirra er að í upphafi næsta árs liggi fyrir skýrsla um úttekt á starfssemi og stjórnun og skipulagi. Á grundvelli þeirrar skýrslu verði teknar ákvarðanir um framtíðarskipulag og rekstrarform deildarinnar.
Mitt svar er nei. Það er engin ástæða til þess að ætla að niðurstaða skýrslunnar verði sú að betur henti að nýta hina meintu kosti frekari einkavæðingar við rekstur geðheiðlbrigðisþjónustunnar. Það er engin ástæða til þess að halda að frekari skref einkavæðingar almannaþjónustunnar verði tekin. Þrátt fyrir stefnu Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var á seinasta landsfundi þess flokks um að stefna ætti að frekari einkavæðingu, einmitt í heilbrigðiskerfinu. Þrátt fyrir að í sáttmála ríkisstjórnarinnar standi að:
„Kostnaðargreina á heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Þannig fái heilbrigðisstofnanir fjármagn í samræmi við þörf og fjölda verka. Skapað verði svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag."
Þrátt fyrir að í aðdraganda seinustu alþingiskosninga hafi Samfylkingin kynnt áætlun sína í heilbrigðismálum sem er samhljóða þessum hluta stjórnarsáttmálans, orðrétt.
Það er varla ástæða til þess að vera með áhyggjur. Ekki fyrr en skýrslan kemur út.
Þá sjáum við hver niðurstaðan verður. Þá sjáum við hvort eigi enn að vega að íslenska velferðarkerfinu. Í stíl nýfrjálshyggju og hægristefnu.