Glæpur og refsing- Athyglisverð umræða
Mjög athyglisverð umræða hefur farið fram hér á heimasíðunni um ýmsar hliðar réttarkerfisins og hafa mörg siðferðileg og heimspekileg álitamál verið vegin og metin. Umræðan kviknaði í kjölfar Hæstaréttardóms yfir Árna Johnsen fyrrverandi Alþingismanni. Hafsteinn reið á vaðið með grein undir liðnum Spurt og spjallað hér að neðan og í dag leggur Helgi Gunnlaugsson prófessor við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands orð í belg í mjög áhugaverði grein. Bréf eða öllu heldur greinar Hafsteins birtust 7. febrúar og síðan aftur 9. febrúar. Hafsteini þótti dómurinn yfir Árna harðneskjulegur og bar hann saman við dóma sem kveðnir hafa verið upp fyrir ýmis níðingsverk. Þá varar Hafsteinn við því sem hann kallar "stéttadóma" og á hann þar við að vafasamt sé að réttarkerfið mismuni mönnum eftir stöðu þeirra í samfélaginu. Helgi Gunnlaugson, sem er þekktur fyrir ígrundaðar skoðanir, varpar ljósi fræðimannsins á umræðuna. Helgi bendir á að meginvandinn í þessum málaflokki liggi að öllum líkindum ekki í refsiþyngdinni heldur fremur í málsmeðferðinni sjálfri og e.t.v. að e-u leyti í hefðum sem skapast hafa.