GLEÐILEGA PÁSKA
Páskarnir eru góður tími. Fyrir þorra fólks er samfelldur frítími frá lokum vinnudags á miðvikudegi og fram á þriðjudagsmorgun. Vaktavinnufólkið þarf hins vegar að standa sína pligt alla páskahelgina, nótt sem dag. Það á við um heilbrigðisstéttirnar, löggæslu- og öryggisstéttir auk þess sem það færist í vöxt að verslun og þjónusta standi til boða öllum stundum og eru páskarnir þar ekki undanskildir.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað æskilegt sé í þessu efni, hvers konar þjóðfélag við viljum. Viljum við þjóðfélag þar sem stefnt er að því að sem flestir geti tekið frí á sama tíma eða viljum við þjóðfélag sem þekkir ekki mun á nóttu og degi, helgum eða rúmhelgum dögum? Síðari kosturinn er vissulega þægilegur. Það er gott að komast í búðina hvenær sem er eða geta nálgast hverja þá þjónustu sem hugsast getur þegar maður þarfnast hennar. Þjóðfélagið er að þróast í þessa átt.
Á móti er þá hitt sjónarmiðið, nefnilega það að fjölskyldur sundrist í fríum. Einn þarf að vinna þegar annar á frí. Það er eftirsjá að sameiginlegum fríum fjölskyldunnar enda hef ég verið hvatamaður þess að við förum okkur hægt við að færa út landamæri vinnunnar.
Þótt ég hafi séð ástæðu til að agnúast út í Ríkisútvarpið vegna fréttamennsku að undanförnu þá verður það að segjast að á stórhátíðum sýnir RÚV jafnan yfir hverjum styrk stofnunin býr. Gamla Gufan brillerar alltaf á páskum. Það gerir hún nú sem endranær. Nýtt efni og gamalt er í hágæðaflokki og ber að þakka fyrir það jafnframt því sem óskað er gleðilegra páska.