GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!
17.06.2011
Í dag halda Íslendingar þjóðhátíð en að þessu sinni voru sögulegar víddir hátíðahaldanna meiri en endranær. Nú minntust menn þess að tvö hundruð ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar og eitt hundrað ár frá því Háskóli Íslands tók til starfa, en lög um stofnun skólans höfðu verið sett árið 1909.
Karl Sigurbjörnsson, biskup, lagði út af lífshlaupi og sögulegri arfleifð Jóns Sigurðssonar, minntist þess þegar hann sem ungur drengur horfði með ádáun á lágmynd Einars Jónssonar, myndhöggvara, á Austurvelli af hinu vöðvastælta ofurmenni sem ruddi brautina, gerði torleiði greiðfært. Biskup sagði Jón Sigurðsson hafa verið gæddur hæfileikum leiðtogans, búið yfir kjarki og staðfestu og mikinn mannkostamann sem vann þjóð sinni ómælt gagn. En slíkir menn væru einmitt öðrum fremur meðvitaðir um smæð sína og bresti. Biskup minnti á að farsæld og velgengni fengist ekki með fylgispekt við leiðtoga heldur í hjartalagi hins almenna manns og jákvæðu hugarfari með þjóðinni. Þótti mér biskupi mælast vel.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fjallaði einnig um Jón Sigurðsson í ræðu á fæðingarstað hans, Hrafnseyri við Arnarfjörð. Einnig forsetinn fjallaði um Jón Sigurðsson sem leiðtoga með tilvísan í hugrekki, málafylgju og góðan málstað:
„Því fór fjarri að allir teldu ætíð sjálfsagt að fylgja honum, en Jón varð leiðtogi í krafti hollustu sinnar við málstaðinn, staðfestunnar. Í hátíðarræðu fyrir hundrað árum sagði merkur sagnfræðingur:
„Hann fer ekki í felur með skoðanir sínar eða heldur því einu fram, sem mestan byr hefir í svipinn. Hann beygir ekki kné fyrir tískunni og tíðarandanum, auðnum og völdunum.""
Þetta er vel mælt um merkilegan mann. Ræðu forseta Íslands á Hrafnseyri má nálgast á eftirfarandi slóð og er vel þess virði að lesa, svo góð þykir mér hún: http://forseti.is/Frettir/Ollfrettin/hatidarholdahrafnseyri/