Fara í efni

GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!

íslenski fáninn
íslenski fáninn

Veðurguðirnir voru þjóðhátíðardeginum hagstæðir á suð-vesturhorninu og sýnist mér á veðurkorti Veðurstofunnar að svo hafi verið um mestallt land. Það eru helst Vestfirðir og norð-vesturland sem virðast hafa fengið heldur of mikla úrkomu fyrir hátíðar-útiveru.

Í Reykjavík voru hitaskúrir en milt og þægilegt veður. Allt grænt og fallegt. Hljómskálagarðurinn skartaði sínu fegursta og þaðan blasti við fjallahringurinn á Reykjanesi yfir opið og fallegt flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni, sem einu sinni var búið að teikna inn á ógnvekjandi blokkahverfi. Í Ráðhúsinu heyrist mér sá draumur lifa enn.

En meiningin var að vera í hátíðarskapi og óska öllum - líka þeim sem þrá blokkarhverfi í Vatnsmýrinni, gleðilegrar þjóðhátíðar.

Ef undan er skilið gamalkunnugt daður sjálfstæðismanna við NATÓ, og þar með forsætisráðherrans í dag, þá mæltist Bjarna Benediktssyni vel á Austurvelli í morgun. Áhersla hans á verndun íslenskrar tungu þótti mér góð.

Þjóðhátíðardagurinn sameinar okkur og er tilefni til að minnast þess hve gott og fallegt land við eigum, tungu og menningu og margt gott í mannlífinu, sem ástæða er til að gleðjast yfir.

Gleðilega þjóðhátíð!