Fara í efni

GLEÐILEGT SUMAR!

Sumardagurinn fyrsti - Hallgrímskirkja 2010
Sumardagurinn fyrsti - Hallgrímskirkja 2010

Í endurminningunni var sumardagurinn fyrsti aldrei alveg það sem honum var ætlað að vera, fyrsti dagur sumarsins. Yfirleitt var vetur enn í loftinu, sem minnti börnin á sig þegar þau spókuðu sig sumarklædd. Berir leggir báru vott ásetningi foreldranna að taka vel á móti sumrinu. Það var eitthvað mikið íslenskt við að berjast í skrúðgöngu í hrollköldum strekkingi á sumardaginn fyrsta. En í loftinu var alltaf einhver óútskýrð  eftirvænting. Allir voru staðráðnir í að komast í sumarskap.
Á mínu æskuheimili fengum við  börnin bolta á sumardaginn fyrsta; það var sumargjöfin okkar. Smám saman tóku aðrar minningar við, vöfflur með rjóma og skátamessa.
Skátamessu sæki ég alltaf á sumardaginn fyrsta þegar ég hef tök á. Það geri ég í bland í minningu föður míns sem um langt árabil stóð framarlega í skátastarfi en einnig vegna hins,  að skátarnir vinna gott æskulýðsstarf og sumardagurinn fyrsti  er og verður í mínum huga dagur æskunnar.
Þessa dagana er ég fjarri minni heimaslóð og sæki hvorki skátamessu né borða íslenskar vöfflur með rjóma.
Úr fjarlægð færi ég öllum lesendum síðunnar góðar kveðjur á sumardaginn fyrsta.
Gleðilegt sumar!