Fara í efni

GÓÐ GREIN HJÁ EINARI

Sæll Ögmundur.

Góð grein hjá Einari Ólafssyni undir “Frjálsum pennum” með fyrirsögninni “RÚSSAR TROÐA ILLSAKIR VIÐ GRANNA SÍNA”!  Málið er auðvitað ekki áróður og ofbeldishneigð Bandaríkjanna og þýja þeirra. Í mínum huga snýst okkar vandi hvorki um Rússa né Kana. Málið snýst um Ríkisútvarpið, hverjir stjórni því og hvernig á því standi að Ríkisútvarpið þylur áróður, árásar- og lygaveldanna eins og strengjabrúða skoðanaframleiðendanna.  Það á jú að vera hægt að segja Íslendingum fréttir án spunans frá  málaliðunum í fjölþjóða fréttamannabransanum, sem alþjóða-auðvaldið kostar. Þar sem við erum sjálfstæð þjóð eigum við að leyfa okkur þann munað!

Menn skulu vita að “NATO” er „varnarbandalag“ Norður-Atlantshafsþjóðanna og var stofnað af leppum Bandaríkjanna, Rússum og kommúnismanum til höfuðs. Við Íslendingar gengum í bandalagið á þeirri forsendu að um varnarbandalag væri að ræða en þjóðin var svo sannarlega ekki einróma í þeim gjörðum og er það væntanlega ekki enn þó mikið hafi verið gert til að heilaþvo hana!  Líklegast hefur meirihluti þjóðarinnar séð í gegnum lygablekkingarnar!

Varsjárbandalag kommúnistaríkjanna var síðan stofnað til varnar gegn “NATO” en var lagt niður við lát Ráðstjórnarríkjanna en þá notuðu Bandaríkin tækifærið til að breiða “NATO” út um allan helming, eins og Einar segir,  Rússum til höfuðs, ekki Ráðstjórnarríkjunum og kommúnismanum, heldur Rússum!  Er að furða þó rússneski björninn rumski og skimi í kringum sig? 

Þar sem “NATO” er ekki það bandalag sem við töldum okkur hafa gengið í, til að verjast árásum Rússa, og “NATO” er nú notað af Bandaríkjunum og þýjum þeirra til voðaverka í óviðkomandi löndum, langt út fyrir Norður-Atlantshafssvæðið, er þá ekki kominn tími fyrir okkur Íslendinga að huga að brottför úr þessari samkundu?  Hugsa um hvort forsvaranlegt sé fyrir okkur að vera í árásarbandalagi Bandaríkjanna sem við höfðum í góðri trú – allavega mörg hver - gengið í sem varnarbandalag Norður-Atlantshafssvæðisins;  sem sé á röngum forsendum. 

Eða eigum við bara að láta nota okkur og gerast samábyrgir glæpamönnunum, og græða kannski aur á því?  Spurningin er hvað fólk kallast sem lætur nota sig fyrir pening? 

Ríkisútvarpið virðist vera á sömu bylgjulengd og fyrrverandi forsætisráðherrar og utanríkisráðherar ásamt þjónum þeirra!

Það er alls staðar sótt að blessaðri íslensku þjóðinni og komið langt fram yfir þau tímamörk sem hún á að setja þar til hún hristir af sér slenið og í kjölfarið hyskið og afæturnar, eins og nývaknaður skógarbjörn!

Kveðja,
Úlfur