Góð lesning, en hvar eru fréttamenn?
Ungur drengur í Írak birtist á sjónvarpsskjá. Hann liggur á sjúkrahúsi, handalaus og litli búkurinn sundurtættur. Hann talaði sem gamall vitur maður. Hann kvaðst sakna handanna sinna því hann þyrfti að vinna. Hann hafði misst móður og systkini í sprengjuárás innrásarherjanna; hermanna sem segjast vera komnir til að frelsa fólk. Ólína skrifar um þessa frelsara í lesendabréfi í dag undir fyrirsögninni: Plebbar. Bréf Ólínu er áhrifaríkt og hvet ég alla til að lesa það.
Colin Powell utanríkisráðherra Bandaríkjanna kom einnig fram í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi, rétt á undan litla drengnum. Hann sagði að nú þyrfti að hyggja að Sýrlandi, þar væru hryðjuverkamenn. Talsmaður íslensku ríkisstjórnarinnar var inntur eftir afstöðu til þessara ummæla í viðtali í DV í gær. Hann sagði að enn sem komið er hefði ekkert verið samþykkt varðandi Sýrland hjá SÞ. En ef.....
Með öðrum orðum, ef sami ferillinn hefst gagnvart Sýrlandi og áður gagnvart Írak og Öryggisráðið verður þvingað með mútum og öðrum þrýstingi eins og gerðist fyrir 13 árum gagnvart Írak, til að setja þumalskrúfurnar á Sýrland, þá má búast við því að íslenska ríkisstjórnin fylgi herra sínum í Washington.
Skyldi engin áhrif hafa á oddvita íslensku ríkisstjórnarinnar þegar yfirmaður vopnaeftirlits SÞ, Hans Blix lýsir því yfir að Bandaríkjastjórn hafi blekkt sig í leitinni af vopnabúrum Íraka. Írakar hafa verið látnir gjalda háu verði, manntjón og eyðilegging landsins séu nú staðreyndir. Bandaríkjastjórn hafi beitt blekkingum. Blix segir að margt bendi til þess að árásin á Írak hafi verið löngu ákveðin. Ef þetta er rétt þá var vopnaleitin aldrei neitt annað en sýndarmennska frá bæjardyrum Bandaríkjastjórnar. Hvað segja íslensk stjórnvöld við þessu? Ætla fjölmiðlar ekki að spyrja þá félaga Halldór og Davíð? Hvar eru fréttamenn?
Hér er vefslóð inn á umfjöllum breska blaðsins Guardian um yfirlýsingar Hans Blix.
http://www.guardian.co.uk/Iraq/Story/0,2763,935251,00.html