GÓÐ NÝBREYTNI: BEIN ÚTSENDING FRÁ NEFNDARFUNDUM
09.11.2011
Að undanförnu hef ég setið þrjá svokallaða opna þingnefndarfundi sem annað hvort hefur verið sjónvarpað frá - eða þeir opnir fjölmiðlum. Hef ég orðið var við að talsvert hefur verið fylgst með þessum fundum, einkum þegar umdeild mál hafa verið tekin fyrir.
Þrír opnir fundir
Í mínu tilviki á það við um fund í fyrradag, 7. nóv. hjá Umhverfis- og samgöngunefnd þar sem arðsemi Vaðlaheiðarganga var til umfjöllunar. Áður hafði ég setið fund um umdeilt mál með Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis þar sem fréttamönnum var veittur aðgangur, en fundinum þó ekki sjónvarpað - því miður. Sá fundur fjallaði um innkaupamál lögreglunnar. Á fundi hinn 18. október hafði ég áður setið sem innanríkisráðherra fyrir svörum hjá Allsherjar- og menntamálanefnd þar sem farið var yfir málefni sem eiga það sameiginlegt að heyra undir innanríkisráðuneytið og þá nefnd.
Þessir fundir hafa verið upplýsandi að mínu mati en ekki síður hafa þeir verið upplýsandi um fjölmiðla og ágætur spegill til að skoða þá, því þeir sem hafa fylgst með sjónvarpssendingunum hafa síðan getað metið betur en ella, fréttafrásagnir og útleggingar í fréttum og ritstjórnargreinum. Sjálfum hefur mér þótt þetta einkar fróðlegt og umhugsunarvert.
Fjórða valdið
Ýmsir höfðu efasemdir um beinar útsendingar af þingnefndarfundum Alþingis. Sjálfum þykir mér þessi nýbreytni lofa góðu, sérstaklega hvað varðar mál sem eru umdeild og hafa gott af því að komast út í þjóðfélagsumræðuna. Þessar beinu útsendingar gera það að verkum að fjölmiðlunum, fjórða valdinu, einsog það er stundum kallað er gert auðveldara um vik að komast í „hráefni" frétta sinna á einskonar hlaðborði.
En jafnframt, sem áður segir, fá áhorfendur tækifæri til að meta hvernig hið fjórða vald beitir sér og/eða, hvernig því er beitt.
Hér eru slóðir á útsendingar Alþingis af fyrrgreindum fundum: http://www.althingi.is/upptokur/horfa_nefnd_asf.php?faerslunr=5436
http://www.althingi.is/upptokur/horfa_nefnd_asf.php?faerslunr=5399