GÓÐ STEMNING Á ÞINGI
Samþykkt var á Alþingi í dag frumvarp um Stöðugleikaskatt og síðan annað frumvarp um hjáleið við þann skatt, heimild fyrir slitabúin til að koma sér undan skattinum að uppfylltum skilyrðum sem eru svo flókin og ógagnsæ að flestir botna hvorki upp né niður í þeim. Þar fyrir utan eru ýmsir þættir málsins leynilegir. Ég hef tekið undir með þeim sem vilja að ekkert sé samþykkt af hálfu Alþingis sem ekki er öllum skiljanlegt og uppi á borði, öllum sýnilegt.
Lítið rætt um leynd og ógagnsæi
Ógagnsæi og leynd var mikið til umræðu í tengslum við Icesave á síðasta kjörtímabili. Andstæðingar Icesave lágu þá ekki á gagnrýni sinni hvað þessa þætti varðar.
Nú eru margir fyrrum gagnrýnendur Icesave komnir í stjórnarmeirihluta og þegja þunnu hljóði þegar leyndarhyggja og ógagnsæi eru í algleymi og þegar Seðlabanka Íslands er veitt ígildi skattlagningarvalds, því starfsmenn hans fá samkvæmt lögunum vald í hendur til að setja puttann upp eða niður, til samþykkis eða synjunar, þegar metið er hvaða bröskurum er hleypt inn í hjáleiðina góðu.
Ákvörðunarvaldið til Seðlabankans
Okkur er sagt að Efnahags- og viðskiptanefnd verði upplýst um ákvarðanir starfsmanna Seðlabankans. En þeirra er valdið.
Sögulegar stundir
Það var mikil og góð stemning á þingi í dag. Forseti þingsins sagði þetta sögulegan dag. Ég er sammála honum um að ákvörðun um stöðugleikaskatt var söguleg og jákvæð. Lögin um hjáleiðina voru eflaust líka söguleg. Ég er hins vegar ekki viss um að það þingmál hafi verið þess eðlis að átt hafi að samþykkja það í stemningsvímu. Ekkert frekar en fjárlögin á haustin. Þó er þetta helmingi stærra mál en fjárlög íslenska ríkisins í krónum talið og nú búið að úthýsa framkvæmdinni.
Í vöku og svefni
Fjölmiðlarnir voru líka í góðu skapi í dag. Kannski var það líka sögulegt. Þó held ég ekki. Þegar allir virðast vera á einu máli þá er Fjórða valdið oftast líka sátt. En það er kannski þá sem við þurfum helst á því að halda. Vel vakandi og alls ekki sofandi.
Atkvæðaskýring: http://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20150703T101125&horfa=1