GÓÐA FÓLKIÐ Í RÍKISSTJÓRNINNI?
Ég skal játa það hreinskilnislega að mér varð hálf illt innra með mér þegar ég hlýddi í dag á Geir H. Haarde, formann Sjálfstæðisflokksins og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar, kætast yfir nýgerðum kjarasamningum fyrir hönd ríkisstjórnar sinnar. Ég man satt að segja ekki eftir eins hástemmdum lýsingaroðrum í tengslum við kjarasamninga og við urðum vitni að á Alþingi í dag.
Það sem er að gerast nú er þetta: Kauptaxtar eru hækkaðir um 18 þúsund krónur á þessu ári og 21.000 kr. hjá iðnaðarmönnum. Jafnframt er sagt við atvinnurekendur að þeir þurfi ekki að hækka kaupið hjá þeim starfsmönnum sínum sem hafa búið við launaskrið og eru með hærri laun en nemur taxtalaunum. Þetta á við þorrann á almennum launamarkaði. Það er einmitt þetta sem gerir almenna launamarkaðinn frábrugðinn hinum opinbera þar sem launataxtarnir gilda. Hvað um það, hækkun á taxtalaunum í átt við það sem útgreidd meðallaun eru, koma þeim að gagni sem eru bundnir við taxtann en það er jafnframt lægst launaða fólkið. Þetta kemur einnig láglaunafólki á landsbyggðinni að gagni því þar eru launin víða lægri og nær taxtanum en á þenslusvæðunum á suð-vesturhorninu og austanlands. Auk þess sem kauptaxtahækkanir eru mikilvægar fyrir láglaunafólkið er þetta að mínu mati einnig mikilvæg aðgerð því þarna er gerð tilraun til að reisa kauptaxtakerfið við.
En hvað var þá svona óþægilegt við umræðuna í dag? Það sem var óþægilegt var að skynja hve ótrúlega fjarri ráðherrarnir, sem eru með milljón á mánuði plús ótal sporslur, virðast heimi láglaunamannsins. Yfirspenntar yfirlýsingar þeirra um hin miklu tímamót báru þessa vott.
Lítum á nokkrar staðreyndir. Lægst launaða fólkið í landinu er nú með innan við 120 þúsund krónur á mánuði. Hækkun um 18 þúsund krónur færir það upp í 138 þúsund. Dugar það til framfærslu? Því fer fjarri.
Samkvæmt skýrslu Hagstofu á útgjöldum heimila á árunum frá 2004 - 2006, þ.e. fyrir 2 - 4 árum, eru meðal heildarútgjöld einstaklings á mánuði í kringum 210.000 kr.
Ef um er að ræða einstakling sem þarf að afla sér húsnæðis er með barn/börn á framfæri og á við kostnaðarsama sjúkdóma að stríða, þá er kostnaðurinn miklu meiri. Lítum á einn útgjaldaþátt sérstaklega, þ.e. húsnæðiskostnaðinn.
Samkvæmt Leigulistanum kostar um 100.000 kr. til 130.000 kr. á mánuði að leigja þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu og um 130.000 til 170.000 að leigja fjögurra herbergja íbúð.
Varðandi afborganir af lánum þarf að líta til ýmissa þátta. Gefum okkur eftirfarandi forsendur:
- 1. Aðili tekur 100% lán, þ.e.a.s. fyrir öllu markaðsverði húsnæðisins. Hér er lántökukostnaður ekki reiknaður með!
- 2. 80% af markaðsverði íbúðar er tekið að láni til 40 ára hjá banka (Glitni) á 6,35% föstum vöxtum.
- 3. 20% lán til 40 ára er tekið hjá lífeyrissjóði (LSR) á 5,75% föstum vöxtum.
- 4. Ekki er gert ráð fyrir neinni verðbólgu á tímabilinu.
- 5. Ekki er gert ráð fyrir dýrum skammtímalánum sem þó er hlutskipti flestra
Upphæð láns: 20.000.000 kr.
Heildarafborganir á mánuði: 113.600
Banki: 92000
Lífeyrissjóður: 21600
Upphæð láns: 25.000.000 kr.
Heildarafborganir á mánuði: 142.000
Banki: 115.000
Lífeyrissjóður: 27.000
Upphæð láns: 30.000.000 kr.
Heildarafborganir á mánuði: 170.000
Banki: 138.000
Lífeyrissjóður: 32.000
Hér sést hve víðsfjarri veruleikanum það er að hinir lægst launuðu geti aflað húsnæðis og lifað sómasamlegu lífi á mánaðarlaunum sínum. Við slíkar aðstæður reynir á velferðarkerfið. Við slíkar aðstæður reynir á ríkisstjórn. Hver var hennar hlutur? Hvert var framlag ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem mér heyrðist í dag vera klökk af tilhugsuninni um eigin góðmennsku. Staðreyndin er sú að ríkisstjórn þeirra ætlar að mjatla í fátækasta hluta þjóðarinnar loforðunum sem stjórnarflokkarnir, sérstaklega Samfylkingin, tefldi fram til að láta kjósa sig til valda. Á sama tíma er haldið áfram að hygla vel stæðum fyrirtækjum. Að sjá síðan fulltrúa þessarar sömu ríkisstjórnar mæra sjálfa sig og berja sér á brjóst fyrir góðmennsku og göfuglyndi er meira en alla vega ég þoli að horfa upp á orðalaust.
Verkalýðshreyfingin á almennum vinnumarkaði hefur nú náð samningum í samkomulagi - án þess að til verkfalla eða alvarlegra hótana um verkföll kæmi. Menn náðu fram eins langt og unnt var við slíkar aðstæður. Og hugmyndafræðin hefur verið margmærð. En að ríkisstjórn stórfyrirtækjanna og hátekjufólksins geti leyft sér það sjálfshól og mærðartal sem þjóðin hefur orðið vitni að síðustu dægrin með skírskotun til árangurs þessara samninga er út úr öllu landakorti og hróplega úr takti við hinn daglega veruleika fólks með innan við 300 þúsund krónur í kaup á mánuði.