Góðærið gefur misvel
Birtist í Mbl
Hinar gleðilegu fréttir ársins eru þær að atvinnuleysi er á niðurleið á Íslandi og samkvæmt spám má gera ráð fyrir að enn dragi eitthvað úr því á komandi ári og verði um tvö og hálft prósent. Það er hins vegar tveimur og hálfu prósentustigi of mikið. Þegar menn tjá sig á tungumáli prósentureikningsins vilja manneskjurnar sem búa að baki tölunum gleymast. Tvö og hálft prósent vinnandi manna á Íslandi eru um þrjú þúsund einstaklingar og þegar fjölskyldur þeirra sem einnig verða fyrir barðinu á atvinnuleysinu eru reiknaðar með erum við að tala um umtalsverðan hluta þjóðarinnar. Frá stríðslokum fram á þennan dag var atvinnuleysi um eitt prósent að meðaltali með tímabundinni undantekningu í lok sjöunda áratugarins. Fjöldaatvinnuleysi er hverju samfélagi dýrkeypt því það stefnir fólki í félagslegt skipbrot auk þess sem beinn tilkostnaður er talinn í háum upphæðum. Á þessum áratug hefur þjóðfélagið verið bútað niður í sífellt smærri einingar og hefur það orðið til að víkja til hliðar hugsun sem byggði á meiri yfirsýn. Þannig hefur verið litið á hagræðingu innan stofnana og fyrirtækja sem allra meina bót án tillits til þess tilkostnaðar, bæði efnalegs og félagslegs, sem af því hlýst þegar fólki er hagrætt út úr starfi og inn í atvinnuleysisbiðraðir.
Hagvöxtur en blikur á lofti
Þegar á heildina er litið hefur vel árað í íslensku atvinnulífi. Hagvöxtur hefur verið meiri en víðast hvar innan OECD eða um fimm prósent og er spáð framhaldi á miklum hagvexti á komandi ári. Afli hefur verið mikill, verðlag gott og uppgangur almennt hjá fyrirtækjum. Á lofti eru hins vegar ýmsar blikur. Þannig hefur viðskiptahalli sjaldan verið eins mikill og á yfirstandanadi ári eða um fjörutíu milljarðar og skuldir heimilanna eru komnar í um fjögur hundruð milljarða króna. Því er rétt að spyrja hvort hagvöxturinn er sprottinn af þenslu sem ekki mun reynast innistæða fyrir. Það er hins vegar staðreynd að hagur ríkissjóðs er góður og eðlilegt og jákvætt að stjórnvöld skuli við slíkar aðstæður leggja kapp á að ná niður skuldum hins opinbera. Samkvæmt yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar setur hún sér það takmark að ná skuldum ríkisins úr um fimmtíu prósentum af vergri landsframleiðslu niður í um tuttugu prósent fljótlega upp úr aldamótum.
Það er vissulega skynsamleg efnahagsstjórn að nýta uppsveifluna í efnahagslífinu til að greiða niður lán. Bæði er það slæmt að þurfa til langframa að verja miklum hluta af tekjum ríkisins í afborganir af skuldum og hitt er einnig á að líta að þegar illa árar þarf að vera svigrúm til að ráðast í lántökur svo unnt sé að smyrja gangverk efnahagslífsins með hressilegri peningainngjöf.
Skuldalækkun en röng forgangsröð
Það er hins vegar grundvallaratriði að skuldum ríkisins sé náð niður á réttum forsendum og verða hér tilgreind þrjú atriði til umhugsunar.
Í fyrsta lagi á ekki að ná niður skuldum ríkisins á kostnað þeirra sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu. Þvert á móti þarf að kappkosta að bæta hag þeirra sérstaklega. Það er óþolandi að þrátt fyrir margumtalað góðæri skuli þeim fjölga í okkar samfélagi sem leita á náðir hjálaparstofnana um nauðþurftir. Að sögn talsmanna innlendra hjálparstofnana er helmingur þeirra sem til þeirra leita öryrkjar. Á undanförnum árum hafa kjör öryrkja og annarra lífeyrisþega sem þurfa að treysta á Almannatryggingar um viðurværi sitt verið skert jafnt og þétt. Þegar bindingin á milli bótagreiðslna almannatrygginga og kaupgjalds var rofin í árslok 1995 óttuðust menn að kjör lífeyrisþega myndu rýrna hlutfallslega og hefur komið á daginn að sá ótti reyndist ekki ástæðulaus. Ríkisstjórnin segir þetta rangt og hefur ítrekað vísað í meðaltöl kaupgjaldsþróunar máli sínu til stuðnings en staðreyndin er sú að þegar lægstu taxtar sem jafnframt voru viðmiðunartaxtar almannatrygginga hækkuðu í síðustu kjarasamningum þá var sú hækkun langt umfram meðaltal. Mismunurinn þar á milli mælir það sem haft hefur verið af lífeyrisþegum. Ef grunnlífeyrir elli- og örorkulífeyrisþega með tekjutryggingu án uppbóta hefði tekið sömu breytingum og lágmarkslaun á árunum 1995 til 1998 hefðu bætur lífeyristrygginga orðið 1.842 milljónum króna hærri á þessu fjögurra ára tímabili en raun varð á.
Annað sem vissulega er áhyggjuefni er hve þrengt er að sveitarfélögunum. Skuldastaða þeirra hefur stórversnað á undanförnum árum og er hún hjá mörgum þeirra komin á alvarlegt stig. Ýmislegt bendir til að hagur ríkissjóðs fari batnandi á kostnað sveitarfélaganna.
Skipulagsbreytingar hjá hinu opinbera er þriðja atriðið sem ber að líta til þegar markmið ríkisstjórnarinnar um að færa niður skuldir á komandi árum eru metin. Ríkisstjórnin hefur nú boðað að hún ætli að ráðast í svokallaða einkaframkvæmd í opinberum rekstri á komandi árum. Þetta er nýtt heiti yfir einkavæðingu sem reynd hefur verið í Bretlandi á liðnum árum og býður upp á ýmsar brellur í bókhaldi. Hugmyndin byggist á því að einkafyrirtæki er fengið til að reisa og reka opinberar stofnanir á borð við sjúkrahús, skóla og fangelsi. Fyrirtækið ræðst í lántökur eða aflar sjálft stofnfjár en hið opinbera sleppur við slíkt fyrst í stað og getur fyrir vikið sýnt fram á góða skuldastöðu. Hins vegar skuldbindur hið opinbera sig til að sjá fyrirtækinu fyrir viðskiptavinum sem þá eru sjúklingar, skólanemar og fangar eftir atvikum og að sjálfsögðu kemur að því að greiða þarf reikninginn. En það er seinni tíma vandamál auk þess sem það hangir yfirleitt á spýtunni að til sögunnar koma skólagjöld og sjúklingaskattar þegar fram líða stundir. Það er umhugsunarvert að í bæklingi íslensku ríkisstjórnarinnar þar sem einkaframkvæmdin er kynnt er einmitt vikið að notendagjöldum.
Dýr einkaframkvæmd
Veikleikar þessa kerfis eru margir. Í fyrsta lagi er mjög óhyggilegt að hið opinbera bindi sig í viðskiptum til langs tíma. Þetta á ekki síst við í heilbrigðismálum og skólamálum þar sem breytingar eru mjög örar. Í annan stað leiða notendagjöld, fylgifiskar þessa kerfis, til ójafnaðar innan velferðarþjónustunnar. Í þriðja lagi er þetta miklu dýrara fyrirkomulag fyrir skattborgarann og notandann en þegar ríkissjóður eða sveitarsjóður annast framkvæmdina og reksturinn sjálf. Í því tilviki er ekki til að dreifa að hagnaður sé tekinn út úr rekstrinum og lántaka er ódýrari. Síðast en ekki síst verður allt bókhald gagnsærra hjá hinu opinbera þegar uppbygging og rekstur er á þess eigin vegum. En einkaframkvæmdin býður stjórnmálamönnum upp á freistingar. Þar sem hún er við lýði eru skuldbindingar hins opinbera ekki færðar skuldamegin í bókhaldsdálkana og eru stjórnmálamenn því í þeirri stórkostlegu stöðu að opna viðstöðulaust nýja skóla og sjúkrahús án þess að sýna versnandi fjárhag og skuldir. Að sjálfsögðu kemur að lokum að skuldadögunum þótt bókhaldið gefi aðra mynd.
Þegar hefur verið boðuð einkaframkvæmd á Iðnskólanum í Hafnarfirði og byrjað er að bjóða út byggingu og rekstur elliheimils á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Mikilvægt er að um þessa stefnubreytingu fari fram víðtæk umræða í þjóðfélaginu því þegar upp er staðið mun þetta hafa áhrif á fjárhag hins opinbera, veikja samneysluna og torvelda jafnan aðgang að henni: Hættan er sú að það verði ekki samneyslan sem fjármagnar reikninginn þegar þar að kemur heldur notandinn beint.
Launakerfi samkvæmt OECD-forskrift
Umfangsmiklar kerfisbreytingar hafa átt sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Að þeim hefur verið unnið samkvæmt forskrift OECD um markaðsvæðingu á opinberum rekstri. Angi af þessari þróun er markaðsvæðing launakerfanna. Nýir aðlögunarsamningar hjá ríki og Reykjavíkurborg eru í þessum anda. Eins og vitað var fyrirfram hefur reynst erfitt að koma nýjum launakerfum á hjá fjárvana stofnunum, skólum og sjúkrahúsum en auðveldara hjá þeim sem hafa úr fjármagni að spila. Þegar á heildina er litið hefur enginn orðið fyrir tekjumissi vegna breytinganna enda alltaf gengið út frá því að svo yrði ekki. Hins vegar verður ekki hægt að gera dæmið upp fyrr en að mörgum árum liðnum því í flestum samningum hefur verið aflögð margvísleg sjálfvirkni vegna starfsaldurs og lífaldurs sem í sumum tilvikum gaf á milli fimmtán og tuttugu og fimm prósenta launahækkun á starfsævinni. Samkvæmt kokkabókum OECD gengur hugmyndin út á að færa allar launaákvarðanir inn í stofnanir, gera þær sjálfráðari um ráðstöfun fjármuna og þegar síðan að því kemur að þær verða knúðar til niðurskurðar og sparnaðar munu þær eiga þann kost að afla fjár með notendagjöldum eða með því að fækka starfsfólki. Launafólk þarf að vera meðvitað til hvers refirnir eru skornir. Hugmyndafræðin gengur út á að beintengja kröfuna um niðurskurð og notendagjöld pyngju starfsmanna sjálfra.
Sá böggull fylgir að sjálfsöðgu skammrifi að þessu kerfi markaðslauna fylgir mismunun sem til dæmis birtist í auknu launamisrétti kynjanna. Þetta er reynslan frá Svíþjóð og þeim löndum öðrum sem farið hafa inn á þessa braut. Og vísbendingu um þetta höfum við þegar úr launakerfum ríkis og Reykjvíkurborgar hvað sem öllum jafnréttisverðlaunum líður. Það sem samtök launafólks gera best varðandi þessa þróun er að vera vakandi fyrir þeim hættum sem þetta kerfi býður upp á og reyna eftir megni að tryggja að samningar séu reistir á félagslegum grunni.
Sigur í lífeyrismálum, verk að vinna í húsnæðismálum
Enn einn áfangasigur vannst á þessu ári í lífeyrismálum með stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Sjóðurinn er áþekkur LSR og býður upp á jafnverðmæt réttindi en með fleiri valmöguleikum. Þessi áfangasigur tengist öðrum framfarasporum sem stigin hafa verið á þessu sviði á liðnum árum og eiga rót að rekja til þeirrar miklu samstöðu sem myndaðist fyrir fáeinum misserum um að gera stórátak til að bæta lífeyriskerfi launafólks.
Verkalýðshreyfingarinnar bíða mörg mikilvæg verkefni á komandi ári. Eitt brýnasta verkefni hreyfingarinnar er að þrýsta á um úrbætur í húsnæðismálum. Eitt versta slys seinni tíma er hvernig farið var fram með ný húsnæðislög í trássi við vilja hreyfingarinnar og allra þeirra félagasamtaka í landinu sem hafa með félagslegt húsnæði að sýsla. Félagslega kerfið byggðist á lágum vöxtum. Nú hafa þeir verið færðir upp í það sem gerist á markaði.
Stórir hópar áttu ekki möguleika á því að nýta sér félagslega kerfið vegna þess að það var of dýrt. Það segir sína sögu að þegar kjörin eru þyngd eins og markaðsvæðingin hefur í för með sér mun þeim fjölga verulega sem þurfa að leita á leigumarkað. Sá markaður er ekki fyrir hendi enda eru á annað þúsund einstaklinga og fjölskyldna á biðlistum eftir húsnæði og drjúgur hluti í brýnni neyð. Það verkefni bíður allra félagslegra afla í landinu að fá úr þessu ástandi bætt og þolir það enga bið.
Landmælingar, víti til varnaðar
Undir lok ársins féll dómur í máli starfsmanna Landmælinga ríkisins gegn ólögmætum flutningi stofnunarinnar frá Reykjavík til Akraness. Málið ráku stéttarfélög starfsfólks Landmælinga og kom niðurstaðan fáum á óvart sem kynnt höfðu sér málin náið. Við þennan dóm voru allir þeir samningar sem gerðir hafa verið í tengslum við flutningana settir í uppnám. Auk þess rifja menn upp aðdraganda þessa máls og þær deilur sem staðið hafa undanfarin tvö ár um flutninginn sem fáir deila núorðið um að hafi verið vanhugsaður. Þeir sem eru fylgjandi byggðastefnu og þeir sem vilja efla opinbera þjónustu á landsbyggðinni geta lært af þessu máli að hér var vitlaust farið í sakirnar og ólöglega í ofanálag. Enn vantar það í okkar stjórnsýslu og pólítík að menn leiðrétti mistök. Hér á landi eru mistökin einfaldlega staðfest með nýjum lögum. Það var gert á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir hátíðar.