Fara í efni

GÓÐUR BOÐSKAPUR FRÁ BESSASTÖÐUM


Fjölmiðlar hafa farið mikinn í tilefni þess að fimm ár eru liðin frá hryðjuverkunum í New York og Washington. Enn eru ekki öll kurl komin til grafar í því efni. Bush Bandaríkjaforseti og hans lið notfærði sér þessa atburði til þess að réttlæta árás á Afganistan og reyndar einnig Íraksinnrásina. Ekki nóg með það því stórhert eftirlit með borgurunum og fangelsanir án dóms og laga voru einnig fylgifiskar þessarar atburðarásar . Þykir mörgum þeir tilburðir, sem nú eru uppi í Bandaríkjunum og víðar, minna óþægilega mikið á vinnubrögð í alræðisríkjum.
Í fjölmiðlum hefur talsvert verið leitað til stjórnmálamanna um álit á þessum atburðum og afleiðingum þeirra. Mismunandi skoðanir hafa komið fram eins og gera mátti ráð fyrir. Sumir vara við eftirlitsþjóðfélaginu, aðrir segja hert eftirlit nauðsynlegt af "öryggisástæðum."
Sjálfur tel ég að með auknu öryggiseftirliti værum við að stíga varasamt spor.
Það gladdi mig að heyra sömu áherslur hjá Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í fréttaviðtali Sjónvarps að kvöldi, 11. september.
Ólafur Ragnar Grímsson sagði það vera miður hversu mörg samfélög heimsins væru byggð á vantrausti. Hryðjuverkaöfl mættu ekki ná þannig tökum á hugsunarhætti og hegðun fólks að samfélaginu væri gjörbreytt og umturnað.: "Ef að það gerðist, þá væru hryðjuverkaöflin búin að ná þeim árangri að þau gætu svo sannarlega hrósað sigri. Og framlag Íslands, í þessum nýja heimi eftir 11. september, er kannski fyrst og fremst það að sýna í verki að þrátt fyrir allt þá sé hægt að vera með þjóðfélag sem er opið og öruggt og frjálst og lýðræðislegt, án þess að reisa varnarmúra tortryggni og ótta. Við séum samfélag sem byggir á því að treysta öllum, þar til það kemur í ljós að það er ekki hægt að treysta þeim. "
Undir þetta skal tekið. Einu má bæta við. Það eru því miður ekki aðeins hryðjuverkaöfl sem vilja skapa glundroða sem síðan hafi keðjuverkandi áhrif. Staðreyndin er nefnilega sú að kaldrifjuð öfl í heiminum, á borð við núverandi valdhafa í Bandaríkjunum, virðast vera mjög áfjáð í að nýta öll tækifæri sem gefast til þess að efla eftirlit með þegnunum og gera þjóðfélögin þannig meðfærilegri. Slíkt auveldar þeim valdabröltið.