Fara í efni

GÓLAÐ ÚT AF FÁEINUM FLÖSKUM

Það er alltaf sama sagan með ykkur kommana, nú reynið þið að búa til bombu úr því að Landsbankinn hafi gefið ríkisstjórninni rauðvínsflösku. En kvartið og kveinið í ykkur snýst ekki um siðferði - þetta eru bara öfundar- og óánægjugól sem koma til af því að þið hafið ekki fengið sama skammt og hinir. Og ekki batnar rausið í ykkur þegar fréttist að Glitnir hafi splæst freyðivíni á ráðherrana.
En hvað um víngjafir almennt, hafa þær tilætluð áhrif á þiggjandann eins og þið kommarnir viljið vera láta? Rannsóknir sýna ótvírætt að svo er ekki. Í 95% tilvika gleymist gefandinn eða þá að þiggjandinn kennir gefandanum um ýmis asnaprik sem hann framkvæmir í vímunni. Ég hef til dæmis mínar heimildir um það að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar hafi um nokkurra ára skeið sent Bush Bandaríkjaforseta íslenskt brennivín í jólagjöf, m.a. í því skyni að minna hann á mikilvægi herstöðvarinnar á Miðnesheiði. Sömu heimildir mínar greina einnig frá því að þessar sendingar hafi haft þveröfug áhrif -  eins og reyndar kunnugt er. Flest bendir til þess að vegna drykkjunnar hafi Bush gleymnt herstöðinni en hins vegar eru áramótaávörp forsetans frá þessum árum hinum venjulega Bandaríkjamanni enn í fersku minni. Skrautleg vægast sagt og örlítið brot úr einu má sjá hér með því að smella á eftirfarandi slóð: http://www.youtube.com/watch?v=lHSiqQpg7Uc&feature=related
Þjóðólfur