Fara í efni

GOTT FYRIR EES EÐA GOTT FYRIR ÍSLAND?

Land fyrir okkur eða EES
Land fyrir okkur eða EES

Eftir að fjölmiðlar fóru að fjalla um nýja reglugerð sem ég setti og takamarkar heimildir þegna á EES svæðinu til landakaupa á Íslandi tóku strax að berast viðbrögð.  Þau skiptust  í tvö horn.

Annars vegar var þessu fagnað og sýnist mér það vera hið almenna viðhorf ef marka má viðbrögð sem mér hafa borist. Þetta er gott fyrir Ísland segir þetta fólk.

Hins vegar eru það þau sem ekki byrja á því að spyrja hvort þetta sé gott fyrir Ísland og íslenskt samfélag heldur hvort ég hafi beðið  um  leyfi í ESB; hvað stóra frænka í Brussel segi við þessu. Var hún örugglega spurð?

Svona hafa atvinnurekendasamtökin þegar spurt. Og ekki skal Ísland látið njóta vafans heldur Brussel. Er örugglega ekki verið að gera á hlut EES? Fréttin var sennilega heldur seint fram komin fyrir Þorstein Pálsson sunnudags-pistlahöfund  Fréttablaðsins en Ólafur ritstjóri getur bætt úr því í leiðara á mánudag. Hann er vanur að gæta sinna manna.

Fréttablaðið er búið að reyna að sanna í úttektum sínum að fráleitt sé að hafa áhyggjur af landakaupum auðmanna, hvað þá erlendra auðmanna.

Ég hef bent á að í aðdraganda hrunsins voru íslenskir auðmenn byrjaðir að fjárfesta í landi. Um allan heim virðist þetta vera að gerast, ekki aðeins í Afríku og Asíu heldur einnig í Evrópu. Þar er nú talað um land-grabbing, klófestingu á landi.

Sjá þessa síðu: http://www.tni.org/briefing/land-concentration-land-grabbing-and-peoples-struggles-europe