GRÆÐGIN RÍÐUR EKKI VIÐ EINTEYMING
18.03.2009
Eftir fjármálahrunið og þær hörmungar sem braskarar og fulltrúar þeirra á Alþingi hafa leitt yfir okkur hefur vaknað með þjóðinni rík ábyrgðarkennd. Launafólk tekur á sig skerðingar á eigin kjörum og sættir sig við skerta þjónustu í þeirri trú og von að það megi verða til þess að fleyta okkur áleiðis út úr vandanum. Almenningur gerir sér grein fyrir því að aðeins með samstöðu tekst okkur að vinna okkur út úr vandanum. Sú samstaða er háð tveimur skilyrðum:
1) Vissu fyrir því að stjórnvöld séu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að endurheimta það sem ranglega var frá þjóðinni tekið og ná okkur undan krumlu alþjóðauðvaldsins.
2) Vissu fyrir því að allir leggi sitt af mörkum.
Þegar í ljós kemur eina ferðina enn að gráðugasti hluti þjóðarinnar ætlar áfram að krafsa til sín verðmæti á kostnað almennings gýs upp gífurleg reiði. Tilefni slíkrar reiði láta ekki á sér standa. Nú hefur komið í ljós að Byr greiddi út arð á síðasta ári að upphæð 13 milljarða. Sama fyrirtæki heimtar nú ríkisstuðning upp á næstum tvöfalda þá upphæð! Væri ekki nær að þeir sem fengu arðinn hjá Byr greiði hann til baka? Önnur birtingarmynd græðginnar eru arðgreiðslur til eigenda Granda. Almennt starfsfólk þar hefur samþykkt kjaraskerðingu í góðri trú. Þegar í ljós kemur að eigendur Granda nota svigrúm kjaraskerðingarinnar til að greiða sjálfum sér arð missir starfsfólkið hreinlega andlitið.
Gera gróðapungar þessa lands sér grein fyrir því hverjar afleiðingar gjörða þeirra gætu orðið? Langlundargeð íslensku launaþjóðarinnar er ekki óendanlegt. Það á sér takmörk. Sem betur fer.