Fara í efni

GREIDDI ATKVÆÐI MEÐ EIGIN TILLÖGUM!


Í morgun greindi ég hér á síðunni frá atkvæðagreiðslu á Alþingi um frumvarp til sveitarstjórnarlaga, frumvarp sem ég lagði fram í ríkisstjórn á síðasta vetri. Frumvarpið fékk góða og ítarlega umfjöllun í samgöngunefnd þingsins sl. vor og síðan í sumar og var gott samstarf á milli allra aðila sem að málinu komu. Allt gagnsætt og uppi á borði.
Kvöldið fyrir þinglok var brugðið út af þessu verklagi  því þá, rétt fyrir lokaafgreiðslu málsins og án teljandi umræðu, kom fram  breytingartillaga frá samgöngunefnd Alþingis við eina veigamestu grein frumvarpsins, nefnilega ákvæði um íbúalýðræði. Með breytingartilllögunni var réttur íbúa stórlega skertur þvert á það sem ég sem flutningsmaður frumvarpsins hafði barist fyrir. Þar á ég mér marga samherja  - en aðallega utan veggja Alþingis eins og fram kom við atkvæðagreiðsluna.
Um þetta hefur verið talsvert fjallað í fjölmiðlum í dag, m.a. á visir.is. Umfjöllunin þar er um sumt góð en greinilega unnin á hlaupum því óskyldum málum er blandað saman samhengislaust, sveitarstjórnarlögunum og lögum um Stjórnarráð Íslands.
Ekki er þetta neitt stórmál að öðru leyti en því að ég vil gjarnan halda því til haga að ég studdi af heilum hug hin nýju sveitarstjórnarlög enda er ég sjálfur flutningsmaður þessa stjórnarfrumvarps. Ég greiddi sem sagt ekki atkvæði gegn frumvarpinu eins og segir á visir.is. Þvert á móti fagnaði ég  samþykkt þess alveg sérstaklega: http://www.althingi.is/altext/raeda/139/rad20110917T174037.html

Ég var hins vegar ósáttur við breytingu á einni grein frumvarpsins og vinnulaginu við þá breytingu og lagðist gegn henni. En það er önnur saga.
visir.is: http://visir.is/ogmundur-bloggar-um-skiptar-skodanir-og-atkvaedagreidslur/article/2011110919041