GRÍMULAUST EVRÓPUSAMBAND OG GRÍMULAUST ÍSLAND
Síðastliðinn miðvikudag birti Ríkisútvarpið athyglisverða frétt frá Birni Malmquist fréttaritara í Brussel um deilur ESB við Norðmenn út af Orkupakka 4 (sem þegar hefur sprengt ríkisstjórn Noregs) og sjávarútvegsstefnu beggja aðila, ESB og Noregs. https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-01-29-nordmenn-i-kroppum-dansi-gagnvart-evropusambandinu-434467
Umhugsunarvert er að íslenskir embættismenn skuli þegar hafa skýrt opinberlega frá því að Ísland samþykki Orkupakka 4. Er það í umboði valkyrjanna þriggja? Eru þingflokkar stjórnarflokkanna þessu samþykkir? Og hvað með stjórnarandstöðuna á þingi, er hún þessu samþykk? Eða er hún kannski engin stjórnarandstaða í þessum málefnum? Og hvar eru fjölmiðlarnir þegar komið er grímulaust fram með þessum hætti?
Björn Malmquist gefur slóð inn á bréf frá sjávarútvegsnefnd ESB sem allir ættu að kynna sér, sérstaklega þau sem telja að ESB myndi veita undanþágur út í hið óendanlega á Íslandsmiðum; þar kæmu Íslendingar til með að ráða öllu.
Í þessum texta frá sjávarútvegsnefnd ESB eru Norðmenn húðskammaðir og hótað refsingu fyrir óhlýðni sína, sjá til dæmis lið 15 í bréfinu þar sem hótað er refsiaðgerðum, að ógleymdum fordæmingum fyrir að voga sér að veita rússneskum skipum og sjómönnum aðstoð í fjórum norskum höfnum, sbr. lið 6. Þetta kann að vera umdeilt hér á landi en ég vek engu að síður athygli á hinni miðstýrðu forrræðishyggju, Noregur er ekki í Evrópusambandinu og ekki undirseldur ákvörðunum þess. En Norðmenn skulu engu að síður hlýða. Sjá hér: í bréfi
Umhugsunarvert er hve lítil umræða þessi frétt Björns Malmquist hefur fengið. Á því þarf að verða breyting.
Þá vil ég vekja athygli á grein Kára hér á síðunni undir yfirskriftinni Frjálsir pennar þar sem hann fjallar um Stjórnun efnahagslögsögu þegar ríki ganga Í ESB. Grein Kára sýnir fram á mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld vandi til verka þegar kemur að boðaðri umræðu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið, sérstaklega í tengslum við sjávarútveg og hafréttarmál. Sjá grein Kára: hér
Það sem læra má af því sem nú er að koma fram er að allt tal um undanþágur varðandi nýtingu auðlinda, ekki síst sjávarauðlindarinnar, er meira og minna byggt á blekkingum, í besta falli óskhyggju.
--------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/