Fara í efni

GRUNDVALLARBREYTINGA ÞÖRF Á FRUMVAPI UM SJÓKVÍAELDI

Ég sé að matvælaráðherra hyggst láta endurskoða það ákvæði stjórnarfrumvarpsins um lagareldi sem snýr að leyfisveitingu til sjókvíaeldis án tímatakmarkana.

Segir að slíkt sé skiljanlega mjög “viðkvæmt”.

Það ætti reyndar að vera svo viðkvæmt að slíkt frmvarp átti að sjálfsögðu aldrei að koma fram.

Á samfélagsmiðlum er málið mikið rætt. Þeir sem hafa viljað bera í bætifláka fyrir ríkisstjórnina hafa sagt, a) að menn verði að hafa í huga að erfitt geti verið að treysta rekstur af þessu tagi í sessi án þess að fjárfestarnir geti horft áhyggjulausir til framtíðar, b) að reynslan m.a. frá Noregi sýni að tímabundin leyfi hafi tilhneigingu til að verða varanleg. Erfitt hafi reynst að ná leyfum til baka frá handhöfum þeirra.

Svar/spurning við a): Er það misskilningur að þessi rekstur sé að uppistöðu til kominn í hendur fjárfesta sem fengið hafa gott ráðrúm í Noregi til að festa sig í sessi? og b): Ef reynslan er sú að erfitt hafi reynst að afturkalla leyfi, þarf þá ekki að læra af þeiri reynslu og búa svo um hnútana að það verði gerlegt og ekki bara gerlegt, heldur geirneglt að svo verði hægt án nokkurra fjárútláta af hálfu hins opinbera?

Svo er það íslenska reynslan. Kvótahafar íslenskir fóru snemma að veðsetja kvótann auk þess sem þeim var heimilað framsal og leiga. Núverandi frumvarp heimilar leigu og framsal. Þarf ekki að endurskoða þetta? Er þetta ekkert “viðkvæmt”?

Við skulum læra af reynslunni. Ég held að það hafi verið forstjóri Brims sem skrifaði grein í Mogga á dögunum þar sem hann kvaðst hafa verið að blaða í bókhaldinu hjá sér og að hann hafi þá komist að raun um að hann ætti þetta allt saman. Og átti hann þá við sjávarauðlindina við Íslandsstrendur!

Því miður voru engir í Stjórnarráðinu sem voru viðkvæmir fyrir slíku tali forstjórans og héldu áfram að kvótasetja það sem eftir var af fiski.

En er ekki mál að linni?

Jú, ekki síst þegar við sjáum kerfið dansa með fjármagninu, samanber slóðir hér að neðan.

Við hljótum að gera kröfu um að lög sem sett eru í landinu séu í almannahag og að löggjafinn sjái við útspilum þeirra sem fyrst og fremst vilja maka krókinn. Lögin um stjórn fiskveiða hafa ekki dugað til þrátt fyrir skýran ásetning um að tryggja sjávarauðlindina í eignarhaldi þjóðarinnar. Af þessu þarf að draga rétta lærdóma við alla lagasmíð sem snýr að auðlindum til lands og sjávar. 

Samstöðin: https://samstodin.is/2024/04/segir-syslumann-a-vestfjordum-abyrgan-fyrir-ohugnadi-dagsins/
Vísir: Heimta hundrað milljóna króna tryggingu - Vísir (visir.is)

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.