EINKAVÆÐING ÍSLANDS?
Hin svokallaða frjálslynda umbótastjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar horfir nú upp á þá eyðileggingu sem kvótakerfið í sjávarútvegi hefur haft í för með sér: ástand fiskistofnanna er hörmulegt.
Í orðum vinar míns Björns Vals Gíslasonar sjómanns, sem kemur nú inn á þing í byrjun næstu viku, er eftirfarandi staðreynd: “Við blasir hrun sjávarplássa, eignaupptaka íbúa landsbyggðarinnar, fólksflutningar úr byggðunum, atvinnumissir og tekjumissir. Afleiðingarnar eru skelfilegar fyrir fólk víða um land ekki síður en fyrir auðlindina í sjónum.”
Þrátt fyrir þetta er augljóslega ætlunin að halda áfram á sömu braut við stjórn fiskveiða, enda hefur ok markaðsvæðingar og frjálshyggju enn fest sig í sessi undir áframhaldandi forystu Sjálfstæðisflokks og tilkippilegum meðleikurum. Enginn þorir að höggva á rót vandans og svokallaðar “mótvægisaðgerðir” duga skammt. Á meðan suðvesturhornið sogar til sín stöðugt meira fjármagn blæðir landsbyggðinni og tekjustofnar sveitafélaganna eru veikir.
Einkavæðingarhyggjan sem sést svo glöggt í stjórn fiskveiða á nú að festa klær sínar á öllum sviðum íslensks mannlífs: í bígerð er að markaðsvæða almannaþjónustuna enn frekar og gjörbreyta þannig grundvallarstoðum íslenska velferðarsamfélagsins. Þetta á að gera þrátt fyrir að við blasi slæmar afleiðingar þessarar stefnu víða erlendis.
Þá er eignarhald á dýrmætustu náttúruauðlindum þjóðarinnar í uppnámi. Svo virðist sem orkuauðlindir landsins eigi næstar að hverfa í dýpstu vasa einstaka auðjöfra undir yfirskini “frelsis” og “útrásar”.
Á yfirborðinu er látið eins og í raun sé ekkert að gerast nema hið jákvæða „viðskiptafrelsi“ sem allir nútímalegir, frjálslyndir umbótasinnar hljóti að fagna. Bylting auðsins, einkavæðing Íslands og eignataka auðlinda er það sem raunverulega um ræðir.
Á meðan sumir fá víxla ævintýralegs gróða þá blasir við neyðarástand innan grundvallarstétta samfélagsins. Hvernig á að leysa manneklu velferðarþjónustunnar? Með hugmyndafræðilegu oki frjálshyggjunnar eða með myndarlegri hækkun grunnlauna og betri starfsaðstæðum?
Bætt kjör vinnukvenna velferðarinnar er jafnréttismál rétt eins og það er spurning um grundvallarinnviði og heilbrigði íslensks samfélags. Útrýming á launamun kynjanna, kynbundnu ofbeldi og misrétti krefst róttækra aðgerða og nýrra viðhorfa. Hvaða róttæku lausnir býður Sjálfstæðisflokkurinn upp á?
Og hvað ætlar ríkisstjórnin að gera við Þjórsá? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera við okkar umtalaða fagra Ísland – ríkisstjórn sem lætur eyðileggingu í Gjástykki óátalda og heimilar Gjábakkaveg, lofar álverum víða um land og treystir sér ekki einu sinni til að vernda stækkað friðland Þjórsárvera fyrir fullt og allt? Arfleifð Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar sem stóriðjuflokka er því miður langt í frá að vera liðin undir lok, þrátt fyrir nýfengna fagurgala. Vonandi fara verkin að tala.
Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mun nú sem fyrr blása til sóknar í öllum þessum málum og berjast af alefli fyrir betra og sanngjarnara samfélagi, iðandi Þjórsá og raunsannri umhverfisvernd, kvenfrelsi, jöfnuði og menningu – og já, frelsi litlu konunnar, litla mannsins, okkar allra, ekki bara útvaldra stórlaxa. Við höfnum heimi þar sem sumir eru jafnari en aðrir í nafni jafnaðarstefnu sem heldur sömu einörðu hægriöflunum við völd og smyr gangverk auðhyggjunnar í skjóli frísklegra fyrirheita.