AÐ STJÓRNA ÞJÓÐFÉLAGI ER EINS OG AÐ SJÓÐA MARGA FISKA Í EINUM POTTI
Nú hefur forysta Sjálfstæðisflokksins verið endurkjörin með rússneskri kosningu, rétt eins og oftast áður. Spurning hvort Geir Haarde hafi farið af landsfundinum heim með fegurstu stelpunni, skal ósagt látið.
Frá því eg byrjaði að fylgjast gjörla með stjórnmálum fyrir um 4 áratugum þá hefur mér alltaf fundist að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi yfirleitt reynt að forðast að taka afstöðu í nokkru deilumáli sem upp hefur komið í íslensku samfélagi. Þeir hafa yfirleitt reynt að láta deilumál leysast af sjálfu sér, afstaða þeirra mótast kannski af því sjónarmiði að best sé að leyfa þessum deilum að fara fram hjá sér, rétt eins og djúpu haustlægðirnar sem skella á landinu með miklum látum og ekki verða umflúnar. Svo áður en langt um líður þá er komið aftur besta veður með sól á vanga og bros út að eyrum.
Kannski þarna verði komist nálægt skýringunni á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Svo virðist að í honum sameinist fleiri en færri sem jafnvel eins og forystan vill helst láta hjá líða að taka afstöðu í nokkru deilumáli. Þau eiga að gufa upp eins og lægðirnar og ef beðið er nógu lengi þá hlýtur að koma einhvern tíma aftur gott veður.
Flestir þeir sem fylgja þessum stærsta flokki vilja gjarnan kyrrstöðu, þeir vilja ekki að einhver ruggi fleytunni, eru þá kannski sjóveikir áður en lagt er frá bryggju.
En þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins taka afstöðu, þá verður hún mjög afdrifarík fyrir land og þjóð. Við sitjum stundum uppi með ýms mál sem seint verða til lyktar leidd eins og mjög miklar deilur um hálendið og landnýtingu, um fiskveiðikvóta, atvinnumál, heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál og utanríkismál svo einhver dæmi séu nefnd. Um þau hafa flest verið mjög skiptar skoðanir í samfélaginu og það ekki neinar smádeilur sem stundum hafa af þeim staðið.
Einkavæðing hefur verið mjög mikil í landinu undanfarinn hálfan anna áratug. Þó svo margt megi ágætt um hana segja þá hefur hún leitt af sér óstjórnlega græðgi, drambsemi og sýndarmennsku í þjóðfélaginu sem er mjög miður. Aldrei hefur verið borist jafn mikið á, aldrei jafn miklu sóað og sólundað, - gömlum og góðum gildum hafa verið nánast fleygt fyrir borð þjóðarskútunnar.
Í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni vakti sérstaka athygli mína þessi gamli draugur úr tíð Davíðs Oddsonar varðandi neitunarvald forseta í stjórnarskrá. Það er ekki heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem skiptir lengur máli, heldur þarf að taka þetta vald úr höndum þessa voðalega forseta sem nú situr! Og þá vill Sjálfstæðisflokkurinn selja bjór og létt vín í matvörubúðum: eru þetta brýnastu málefnin sem Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja fyrir kjósendur sína örfáum vikum fyrir kosningar?
Framundan eru hvorki einfaldir né auðveldir tímar við farsæla efnahagsstjórnun landsins. Við eigum eftir að bíta úr nálinni með þessa mjög umdeildu stórvirkjun eystra þar sem búast má við öðrum tölum í lokareikningi en við upphaflegt tilboð ítalska verktakafyrirtækisins. Kannski við eigum eftir að sjá himinháa lokareikninga rétt eins og þegar Ítalirnir rukkuðu fyrir Metró í Kaupmannahöfn hér um árið. Og hugsanlegar tafir við að afhenda álbræðslunni nægjanlegt rafmagn geta einnig leitt til mjög hárra greiðslna dagsekta og skaðabóta ef forsendur standast ekki. Rafvæðing landsins hefur verið hraðari en rök mæla með og hætt við að viðsnúningur til verri vegar verði e.t.v. staðreynd áður en langt um líður.
Kannski hafi fáir haft jafnmikið til síns máls og Lao Tse sem Bókin um veginn er kennd við. Eftir þessum forna kínverska heimspekingi er haft eftir að stjórna þjóðfélagi væri eins og að sjóða marga fiska í einum potti.
Guðjón Jensson
Mosfellsbæ