GUÐLAUGUR ÞÓR OG FINNUR
Síðustu tvo áratugina tæpa hefur gengið yfir mikil einkavæðingarbylgja. Fyrst í stjórnartíð Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, síðan í stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og nú loks í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Á fyrsta skeiðinu hygg ég að Alþýðuflokkurinn hafi haldið aftur af einkavæðingaröflunum í Sjálfstæðisflokknum. Enda þótt Sighvatur Björgvinsson hafi viljað innræta sjúklingum kostnaðarvitund með gjaldtöku var hann því andvígur að einkavæða raforkukerfið - alla vega á þessum tíma. Hann stakk öllum slíkum áformum niður í skúffu, læsti henni og fleygði lyklinum. Gott hjá Sighvati.
Síðan kom Framsókn. Þá kárnaði gamanið. Harðdrægastur í einkavæðingunni var Finnur Ingólfsson enda hamhleypa til verka. Sá var vandinn. Hann hamaðist með bankana og rafmagnseftirlitið ( þið munið eftirlitið sem Frumherji sinnir nú, fyrirtækið hans Finns). Á þessum tíma var farið að tala um einkavinavæðingu. Póstur og sími var settur á færibandið og Áburðarverksmiðjan var seld - gefin, væri kannski nákvæmara orðalag. Yfirleitt gat Sjálfstæðisflokkurinn hallað sér makindalega aftur í stólnum á meðan Finnur verkstýrði einstökum ferliverkum innan þings og utan. Nú blása aðrir vindar í Framsókn. Guðni Ágústsson formaður er maður samfélagsþjónustunnar. Þá bregður hins vegar svo við að í Samfylkingunni rísa upp harðdrægir markaðsmenn og því þægilegir meðreiðarsveinar peningaaflanna í Sjálfstæðisflokknum. Þar fer fremstur varaformaður flokksins Ágúst Ólafur. Hann er nýhættur að vera ungliði enda farinn að fylgja eldgamalli pólitík. Það er hins vegar unga fólkið í Samfylkingunni sem ber ugg í brjósti og vill kveikja á jafnaðarmannaloganum í brjóstum samfylkingarfólks. En þótt Ágúst Ólafur sé liðtækur sem aðstoðarmaður við markaðsvæðingu samfélagsþjónustunar hvílir verkstjórnin á hendi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Hann hefur tamið sér tækni Finns Ingólfssonar og segist aldrei vera að gera það sem hann raunverulega er að gera. Það er bara verið að hagræða pínulítið, nútímavæða og auðvelda en svo...
Um þessa aðferðafræði skrifar Jóhann Hauksson, fréttamaður, góða grein í DV í dag, sbr. hér:
(Fimmtudagskjallari DV – 11. sept. 2008 – Jóhann Hauksson)
Lækningin verri en sjúkdómurinn
Gefum okkur að tilgangur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, með nýjum lögum um sjúkratryggingar sé málefnalegur og til þess fallinn að nýta skattfé betur en áður í heilbrigðiskerfinu. Gefum okkur að lögin séu líka í anda stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem markið er sett á “nútímavæðingu” stjórnsýslunnar. Gefum okkur ennfremur að sú aðferð að skilgreina ríkið sem kaupanda heilbrigðisþjónustu og einkafyrirtækin sem seljendur verði notuð til að gera kerfið gegnsærra og auka kostnaðar- og gæðavitund. Gefum okkur þar að auki að það sér satt sem Guðlaugur sagði á Rás 2 síðastliðinn þriðjudag að markmið frumvarpsins sé ekki að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Gefum okkur loks að það sé satt sem hann sagði að breytingarnar sem gera á með frumvarpinu hafi ekkert með einkavæðingu að gera.
Að gefnu öllu þessu: Hvernig stendur á því að ungir jafnaðarmenn, þeir sem erfa eiga Samfylkinguna, leggjast gegn svo göfugum markmiðum. Telja þeir að Guðlaugur, Ingibjörg Sólrún og Ágúst Ólafur séu að reyna að lækna heilbrigt heilbrigðiskerfi? Telja þeir að lækningin verði verri en sjúkdómurinn? Ungir jafnaðarmenn segja að grunnreglur stjórnsýsluréttarins, svo sem jafnræðisreglan, meðalhófsreglan, lögmætisreglan og hæfisreglur muni ekki gilda um starfsemina verði einkaaðilum falinn rekstur heilbrigðisstofnana.
Sakleysislegt yfirborðAllyson Pollock er sérfræðingur um einkarekstur og einkavæðingu breska heilbrigðiskerfisins. Hún hefur haldið fyrirlestur hér á landi í boði BSRB. Morgunblaðið hefur útmálað hana sem gæludýr vinstri gagnrýnenda í Bretlandi. Minna má á að samtök atvinnurekenda og verslunar hafa boðið ýmsum sjónhverfingamönnum til landsins undanfarin misseri til að lofa hamfarakapítalismann og einkavæðinguna. Er það gagnrýnivert?
Eftir að hafa kynnt sér aðstæður hérlendis fullyrðir Pollock að frumvarp Guðlaugs sé liður í markaðsvæðingu íslenska heilbrigðiskerfisins. Hún varar við því að gera heilbriðisþjónustuna að markaðsvöru. Þannig missi almannavaldið tök sín á því hvernig skattfé þeirra sé raunverulega varið. Pukur og ógagnsæi taki völdin þegar vaxandi hluti skattfjár almennings umbreytist í arð einkafyrirtækja. Hún fullyrðir auk þess að með hliðstæðum breytingum í Englandi á sínum tíma hafi stjórnunarkostnaður í heilbrigðiskerfinu tvöfaldast. Um 30 til 50 prósent fjármagns í bandarísku heilbrigðiskerfinu fari í viðskiptakostnað en ekki lækningar eða eiginlega þjónustu við sjúka. Vill Samfylkingin líkja eftir einkarekstri bandaríska kerfisins sem kostar skattborgarana í senn meira en gerist í Evrópu en skilur auk þess 50 milljónir íbúa eftir á köldum klaka og án sjúkratrygginga?
Pollock segir að sérhver breyting sem stjórnvöld gerðu á leið til einkarekstrar og einkavæðingar í bresku heilbrigðisþjónustunni hafi ævinlega verið kynnt sem minniháttar tæknilegar breytingar. Notuð voru fín hugtök eins og “samvinna einkaframtaks og hins opinbera”, “nútímavæðing”, “meiri verðmæti fyrir peninginn” og svo framvegis. Frumvarp Guðlaugs sé af sama toga og gefi ráðherranum lausan tauminn við útgáfu stefnumarkandi reglugerða. – Allyson Pollock er sem sagt sannfærð um að sakleysislegar breytingar á íslenska heilbrigðiskerfinu séu liður í þróun sem gætir víða og leitt hefur til kostnaðarhækkana og ójafnaðar. HálfsannleikurÞað þýðir ekkert fyrir íslenska repúblíkana eða bláeyga markaðshyggjumenn í Samfylkingunni að stimpla breska háskólaprófessorinn Allyson Pollock sem ómarktækan vinstrigagnrýnanda. Virtir bandarískir hagfræðigúrúar á borð við Jeffrey Sachs taka í sama streng og hún. Eftirfarandi skrifaði Sachs í Daily Times 23. apríl 2006: “Það er kaldhæðnislegt að í Bandaríkjunum, þar sem lausnir einkamarkaðarins eru í fyrirrúmi, er kerfið svo óskilvirkt að Bandaríkjamenn greiða 14 prósent af þjóðartekjum sínum til heilbrigðismála en Norðurlöndin aðeins 11 prósent.”Ögmundur Jónasson stundar upplýsandi stjórnarandstöðu. Guðlaugur Þór talar hálfsannleik sem alltaf hefur einkennt einkavæðingaráráttuna.