GUÐLAUGUR ÞÓR OG ÞÖGLI FÉLAGINN
Heilbrigðisráðherrann, Guðlaugur Þór Þórðarson, kom fram í sjónvarpsfréttum í dag til að lýsa því yfir að ég væri að sá fræjum tortryggni þegar ég héldi því fram að verið væri að einkavæða innan heilbrigðiskerfisins. Áður hefur hann lýst því yfir að ekkert sé fjær lagi en að hann vilji einkavæða heilbrigðiskerfið. Í slíkum málflutningi hefur heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins verið bakkaður upp af Samfylkingunni, samstarfsflokknum í ríkisstjórn.
Að blekkja með hugtökum
Svona talar heilbrigðisráðherrann jafnvel þótt til umræðu sé auglýsing í Morgunblaðinu um einkavæðingu heillar deildar á Landspítalanum! Og Samfylkingin sýnir eina ferðina enn hve smá í sniðum hún er. Stundum þegir Samfylkingin, stundum sendir hún varaformanninn Ágúst Ólaf fram á sjónarsviðið til að segja okkur hvílíkur misskilningur og rangtúlkun það sé hjá Ögmundi Jónassyni að kalla það einkavæðingu þegar rekstur er færður til einkaaðila. Slíkt eigi að kalla sínu rétta nafni, nefnilega einkarekstur og hann hafi ekkert með einkavæðingu að gera! Eða veit Ögmundur Jónasson ekki að það er skattborgarinn sem borgar fyrir einkarekna heilbrigðisþjóðunustu? En hvenær verður einkarekstur að einkavæðingu, spyr téður ÖJ? Er einkarekstur ennþá bara einkarekstur og ekki einkavæðing þegar notandinn er farinn að greiða háeffinu fyrir þjónustuna í bland við skattborgarann? Þetta er list sem sumir stunda með góðum árangri, að blekkja með hugtökum.
Stórmannlegt?
Heiðarleiki? Ekki finnst mér það. Heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins einkavæðir á bak við tjöldin og afneitar á sama tíma einkavæðingarstefnu flokks síns þegar fjölmiðlar ganga á hann. Samfylkingin er hins vegar hinn þögli félagi, the silent partner einsog Bretar kalla þá sem samþykkja með þögninni það sem þeir þora ekki að gangast við opinberlega.
Hinn þögli félagi. Skrítið hlutskipti. Stórmannlegt? Nei, bara Samfylking.
Frétt RÚV í kvöld: http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397849/1