Guðmundur gleður Björn
Stundum birtast illskiljanlegar greinar í dagblöðum. Ein slík birtist í Morgunblaðinu í gær.
Einni örlítilli en mikilvægri athugasemd er nauðsynlegt að koma á framfæri af þessu tilefni: Um virðisaukaskatt á matvæli, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, hef ég ekki tjáð mig í alllangan tíma. Það hef ég reyndar ekki gert svo ég minnist, síðan á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar þegar þessi leið í skattamálum var mjög til umræðu. Þá lagðist ég gegn lækkun viðisaukaskattsins og taldi að fara ætti aðrar leiðir sem ég taldi vera markvissari til kjarajöfnunar í þjóðfélaginu!
Ég er hins vegar reiðubúinn að hlusta á ný rök í málinu og hef ég að sjálfsögðu lagt eyrun við málflutningi talsmanna Samfylkingarinnar í þesu efni. Um þann málflutning hef ég hins vegar ekki tjáð mig. Ég vona að Guðmundur Ólafsson komi betur undirbúinn til kennslu en hann er þegar hann sest við skrftir fyrir Morgunblaðið. Að öðrum kosti kynni einhver að láta sér detta í hug að tími væri kominn fyrir svona háskólakennara að hverfa til annarra starfa.
En þótt skrif Guðmundar misstu marks að þessu sinni, tókst honum þó eitt.
Össur og Ögmundur hamast nú mjög gegn því fátæka fólki sem verður að vinna mikið vegna skulda. Þegar námslán, húsbréf, bílalán og annað ólán steðjar að er eina leiðin að vinna meira og meira og það vill ungt fólk gera ef með þarf. Afleiðingin er hátekjuskattur, óréttlátur og heimskulegur, á þá sem vilja og reyna að bjarga sér.
Svo ætla þeir að innleiða skattaafslátt á matvöru, skerða tekjur ríkissjóðs til þess að lækka verð á þessum tiltekna vöruflokki. Þetta eru kallaðar niðurgreiðslur á mannamáli og hafa verið eitur í beinum sósíaldemókrata hingað til. Þær eiga að bætast við þær niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum sem fyrir eru.
Verst af öllu er að þessar auknu niðurgreiðslur færu að hluta í vasa kaupmanna og framleiðenda eins og aðrar niðurgreiðslur. Var það ætlunin eða hvað?
Er ekki kominn tími til að svona stjórnmálamenn hverfi til annarra starfa?