Að tapa með glæsibrag
Þá eru forsetakosningar að baki og hirð forsætisráðherra komin á handahlaup við að sanna að forsetinn hafi gjörtapað kosningunum. Að stuðningur 85% gildra atkvæða eða ef við viljum heldur 67% stuðningur þeirra sem komu á kjörstað sé stórtap, reiðarslag eins og forsætisráðherra sagði í vímu NATO fundar í lýðræðisríkinu Tyrklandi, er fyrir ofan minn skilning, en ég hef nú heldur ekki mikinn skilning. Svo er allt í einu farið að tala um hlutfall af þeim sem voru á kjörskrá. Ég man að vísu ekki eftir að það hafi verið gert áður, en allt er víst hey í harðindum. En þá eru landsfeðurnir farnir að höggva nokkuð nærri sjálfum sér, því eftir sama útreikningi fengu ríkisstjórnarflokkarnir aðeins fylgi 45% af kosningabærum mönnum við síðustu kosningar. Það hlýtur eftir sama mælikvarða að hafa verið reiðarslag fyrir þá. Svo skrifar hólmsteinninn rammagrein í blað allra landsmanna í morgun þar sem hann talar um 42% fylgi Ólafs móti 90% fylgi Vigdísar 1988, en og lesið nú rétt: af greiddum atkvæðum í þeim kosningum. Þetta heitir á nútíma máli að bera saman epli og appelsínur eða legg og skel ef við notum þjóðlegt mál. Nú er líka tönnlast á því að enginn hafi rætt um að skila auðu, þetta væru viðbrögð grasrótarinnar. Grasrótin hefur nú ekki alltaf verið í hávegum höfð á þessum bæjum, en það duldist engum að mikill áróður var í þá átt að skila auðu sem mótmæli og kynt undir með stanslausum, allt að því rótarlegum skrifum. Allt er þetta hluti af þeirri ofsareiði og jafnvel skelfingu sem greip stjórnarherrana þegar forsetinn notaði stjórnarskrárbundinn rétt sinn, sem þjóðin, grasrótin, hefur alltaf vitað af og aldrei verið dregið í efa í mín eyru frá því að ég fór að heyra um þjóðmál einhverntíma á miðri síðustu öld að væri fyrir hendi. Með því að koma lífi í þetta stjórnarskrárákvæði sýndi forseti mikinn kjark því að það var vitað mál að stjórnvöld og þingmenn þeirra myndu snúast öndverð við. Er líklegt að það hefðu orðið viðbrögð flestra stjórnarherra þótt þeir núverandi séu ótrúlega viðskotaillir. En úrslitin eru ljós, Ólafur Ragnar hefur fengið ótvíræðan stuðning til embættis síns. Hvort hólmsteinarnir verða nokkurn tíma sáttir skiptir minna máli, þeir munu eflaust kyrja sönginn um baugsforsetann. Það hlýtur samt að vera erfitt fyrir forsætisráðherra að fyrsti stafur í föðurnafni hans og fyrsti stafurinn í nafninu Ólafur er baugur.