VAR ÞAÐ ÞETTA SEM MENN VILDU?
Mikil átök eiga sér stað um um þessar mundir um eignarhald og nýtingu orkuauðlindanna og vatnsins. Átök sem snúast um það hvort tryggja eigi eignarhald og nýtingu ríkis og sveitarfélaga á orkuauðlindunum eins og annarri grunnþjónustu eða hvort fórna eigi sameigninni í þágu peningaaflanna. Þessi átök hafa komið skýrt fram síðastliðna daga og vikur í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og allri þeirri ólgu sem verið hefur í borgarstjórn Reykjavíkur henni tengd; ólgu sem endaði með uppgjöri og falli meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Uppgjöri sem ekki síst er að þakka ótrúlega flottri framgöngu Svandísar Svavarsdóttur. Uppgjöri sem leitt hefur til þess að í dag varð til nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur sem vonandi snýr af þeirri leið sem gekk algjörlega fram af fólki.
Við Vinstri græn leggjum ríka áherslu á að eignarhlad á vatnsafli, jarðvarma til orkuframleiðslu og ferskvatni sé eins og aðrar náttúruauðlindir í sameign landsmanna og að orkufyrirtæki séu í eigu opinberra aðila. Það er því nokkuð ljóst að framvinda mála í Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja eru ekki í samræmi við okkar vilja.
Yfirlýst og samþykkt stefna Sjálfstæðisflokksins er að stuðla að einkavæðingu orkufyrirtækja. Sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hratt af stað atburðarás sem enn er í fullum gangi. Eftir viðskipti sumarsins voru eigendur HS Reykjanesbær, Geysir Green Energy, Hafnarfjarðarbær, Orkuveita Reykjavíkur og síðan Vogar og Grindavík með lítinn eignarhlut. Eignaskiptingin var með þeim hætti að þá voru 33% eignarhluti fyrirtækisins í eigu GGE sem er einkafyrirtæki.
Næsti kafli sögunnar er síðan sá sem enn sér ekki fyrir endann á. Segja má að sá kafli hafi hafist með ákvörðun um samruna GGE og Reykjavík Energy Invest. Samruna sem felst í því að GGE tekur nafn REI. Á sama tíma ákvað Orkuveita Reykjavíkur að sá hlutur sem Orkuveitan keypti í sumar yrði eignarhlutur REI í HS. Með þeim gjörningi yrði eignarhluti HS sem þá yrði kominn í hendur einkaaðila orðinn að 48,5% og því komið að þolmörkum þess sem telst löglegt hlutfall eignar einkaaðila í fyrirtækjum eins og HS. En bíðum við. Þetta er nefnilega ekki svona einfalt. Ég get ekki séð annað en að með því að Geysir Green Energy rynni saman við Reykjavík Energy Invest hafi skapast forkaupsréttur á þeim hluta sem áður taldist í eigu GGE auk þess sem að með því að ákveða að breyta eignarhluta OR í eign REI þá skapast einnig þar forkaupsréttur. Með þessum gjörningi hefur því skapast forkaupsréttur að 48,5% eignarhluta Hitaveitunnar.
Til að flækja málið enn frekar þá er enn einn kaflinn eftir í þessari sögu sem tengist Hitaveitu Suðurnesja og það hefur með hlut Hafnarfjarðar í Hitaveitunni að gera. Samkvæmt samkomulagi Hafnarfjarðar og OR frá því í sumar þá hefur Hafnarfjörður fram til áramóta að ákveða hvort hann ætli að selja sinn hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Samkvæmt fréttum þá er sérstaklega getið um þennan hlut Hafnarjarðar í tengslum við samruna GGE og REI. Samkvæmt því þá á hlutur Hafnarfjarðar ekki að verða að hlut Orkuveitunnar í HS heldur hlutur REI í Hitaveitu Suðurnesja. Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði hafa þegar lagt fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn Hafnarfjarðar gangi nú þegar að tilboði OR í hlut Hafnarfjarðar. Ef af þessu yrði þá væri Hitaveita Suðurnesja ekki aðeins að 48,5% hlut í eigu einkaaðila heldur yrði 63,5% hlutur HS í eigu einkaaðila. Er það þetta sem menn vildu? Finnst þeim þetta bara í fínu lagi? Svo mikið er víst að bæjarstjóra Reykjanesbæjar virðist finnast þetta í fínu lagi og fyrrverandi meirihluta í Reykjavík með Sjálfstæðismenn í fararbroddi virðist líka finnast þetta í fínu lagi. Vandi þessara aðila er hins vegar sem betur fer sá að almenningi er nóg boðið.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir