GÚLAG ÍSLENSKRA STJÓRNMÁLA?
Ekki kom mér á óvart að einhverjir tugir manna reyndu að segja sig úr Samfylkingunni í kjölfar nýafstaðinna fomannskosninga. Hins vegar er ég ekki viss um að allar úrsagnirnar tengist endilega niðurstöðum kosninganna. Nær er mér að halda að þær tengist áralangri baráttu fólks til að brjótast út úr flokknum. Það er nefnilega hægara sagt en gert að komast út úr Samfylkingunni.
Einhverjir kunna að hafa gengið í Samfylkinguna til að taka þátt í nýafstaðinni formannskosningu þar. Ég veit hins vegar til allmargra sem eru í Samfylkingunni án þess að vilja vera þar.
Grófara getur það varla orðið. Ungur maður gengur til liðs við stjórnmálahreyfingu sem síðan neitar að láta hann lausan! Einnig hafa borist fréttir af einstaklingum sem ekkert vilja hafa með Samfylkinguna að gera en hafa hins vegar verið skráðir sem flokksmenn. Þetta fólk hefur sennilega verið skráð án vitundar og vilja þess, í von um að viðkomandi myndi kjósa "rétt" í formannsslagnum. En sú taktík virðist ekki hafa skilað miklu fyrst aðeins helmingur "flokksbundinna" manna kaus í formannskjörinu. Er ekki eitthvað bogið við það þegar aðeins helmingur "flokksbundinna" manna kýs í formannskjöri í flokki sem hefur ekki hugsað um annað í fleiri mánuði? Þrátt fyrir auglýsingastofur og tugi launaðra manna við að reka áróður í formannskjöri er uppskeran rýr. Mín tilfinning er að Samfylkingin sé orðin að pólitískum fangabúðum, eins konar pólitísku Gúlagi þaðan sem fólk á ekki afturkvæmt hafi það einu sinni stigið inn fyrir þröskuldinn. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til Samfylkingarinnar hvort ekki sé rétt að gefa föngunum frelsi. Varla vill Samfylkingin sitja undir því að vera kölluð Gúlag íslenskra stjórnmála – eða hvað?
Sunna Sara