MANNAUÐS-STJÓRNUN EÐA „ÞRÆLAHALD".
Það er sorglegt að átta sig á því að alþjóðlegir auðhringar, eigendur allrar stóriðju á Íslandi, sem hugsa fyrst og fremst um hagnað og gróðavon, fari miklu betur með sinn mannauð en opinberar stofnanir sem reknar eru að meirihluta til af almannafé. Mikil umræða hefur verið um styttingu vinnuvikunnar og sitt sýnist hverjum og veltur það aðallega á „hagsmunum" þeirra sem um fjalla eða á misskilinni hagsmunagæslu ákveðinna aðila. Það skal tekið fram að eftirfarandi samanburður er ekki gerður til að öfundast út í þá sem vinna í stóriðju eða til að grafa undan þeim réttindum og kjörum sem þar hafa náðst.
Vinnuframlag opinbers starfsmanns
Sjúkraliði í 100% starfi skilar af sér 173,33 vinnustundum á mánuði að jafnaði eða 21,6 vöktum á mánuði, ef unnið er á átta tíma vöktum. Því miður hafa sjúkraliðar ekki getað treyst því að vaktirnar séu reglubundnar átta tíma vaktir þar sem margir misvitrir vinnuveitendur hafa þvingað starfsfólk á styttri „akkorðsvaktir" þar sem álagið er gríðarlegt og launin jafnframt lægst. Á heilu ári skilar sjúkraliði að jafnaði 1.800 vinnustundum þegar dregin hafa verið frá lögbundin frí. Það á við um allt opinbert vaktavinnufólk. Endanlegur fjöldi vinnustunda veltur á lífaldri og þeirri reglu sem valin er um hvernig bæta á fyrir vinnuskyldu á almennum frídögum.
Vinnuframlag stóriðjustarfsmanna
Vaktavinnufólk í stóriðju (u.þ.b. 90% karlmenn) skilar hinsvegar 144 vinnustundum á mánuði að jafnaði, eða 18 vöktum á mánuði og þau geta treyst því að vaktirnar eru átta tímar og einnig því að fá fulla vinnu. Á heilu ári skilar starfsmaður í stóriðjunni um 1.600 vinnustundum þegar orlof og vetrarleyfi hafa verið dregin frá, en vinnutími styttist með auknum líf- og starfsaldri. Þetta gerir mismun í vinnuskilum allt upp í 25 vaktir. Þetta eru rúmlega mánuði minni vinnuskil en hjá sjúkraliða. Starfsmenn í stóriðju hafa jafnframt rétt á því við 55 ára aldur að stytta vinnuskyldu starfsársins um 1 mánuð og aftur við 60 ára aldur um annan mánuð án skerðingar á lífeyri.
Mannauður sjúkraliða
Veikindi sjúkraliða sem starfa innan heilbrigðiskerfisins eru á bilinu 9-11% af vinnuskyldu ársins, sem nemur u.þ.b. 25 vöktum á ári. Stöðugildi sjúkraliða hjá ríkinu eru um 770, af því leiðir í heild u.þ.b. 19.250 veikindadaga einungis hjá sjúkraliðum sem starfa hjá ríkinu. Hver dagur kostar að meðaltali 24 þúsund krónur, sem gerir að vinnuframlag að andvirði 462 milljóna króna á ári fellur niður og tapast. Ekki er reiknað með viðbótarkostnaði vegna afleysinga.
Landspítali - háskólasjúkrahús, stærsti vinnustaður sjúkraliða, kannaði m.a. starfsánægju sinna starfsmanna og þar kom fram að um 30% þeirra sem starfa á spítalanum treysta sér ekki til að mæla með vinnustaðnum sínum og einungis 40% eru sátt við launakjör sín. LSH gerði könnun árið 2010 þar sem spurt var: „Er LSH aðlaðandi vinnustaður?" Í ljós kom að innan við helmingur, eða 47% þeirra sem unnu á þeim sviðum sem sjúkraliðar störfuðu á, svaraði því játandi. Öll umræða um að fjölga ákveðnum heilbrigðisstéttum í námi, þ.m.t. sjúkraliðum, og fá fleiri til starfa er innihaldslaus að óbreyttum starfskjörum.
Mannauður í stóriðju
Gott heilsufar og mikil starfsánægja er hjá Isal/Rio Tinto. Fram kemur í könnun hjá fyrirtækinu að veikindi eru einungis um 4% á ári á stöðugildi sem gerir tæplega 8 vaktir á ári, sem er aðeins tæplega þriðjungur af veikindatíðni sjúkraliða.
Starfsánægja er mjög mikil. Fram kemur í nýlegri könnun að 90% eru ánægð eða mjög ánægð í starfi og einungis rúmlega 3% óánægð. Það er auðvelt að álykta út frá þessum upplýsingum að reglufestan varðandi vaktir, styttri vinnutími, eðlilegt vinnuálag/mönnun og stytting vinnuskyldu með vaxandi aldri hafi mjög mikið að segja.
Heilsufar sjúkraliða
Styrktarsjóður BSRB og Virk endurhæfingarsjóður gefa reglulega út yfirlit yfir þá sem þangað sækja stuðning. Stór hópur þeirra er sjúkraliðar sem hreinlega eru komnir að fótum fram. Athygli vekur að í langan tíma hafa sjúkraliðar verið 25% þeirra sem sækja um sjúkradagpeninga til Styrktarsjóðs BSRB, en eru á sama tíma einungis um 10% þeirra sem greiða í sjóðinn. Þessar tölur eru enn ein staðfesting þess hversu starf sjúkraliðans er erfitt og slítandi samanborið við mörg önnur störf. Sjúkraliðar eru 16,7% þeirra félagsmanna BSRB sem nýtt hafa sér þjónustu Starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK þótt þeir séu aðeins 9,1% af félagsmönnum BSRB. Þörfin er þannig nánast tvöföld umfram hlutfall sjúkraliða af heildinni.
Nútíma þrælahald
Það er eðlilegt að velta upp þeirri áleitnu spurningu hvort ákveðnir starfsmenn innan heilbrigðiskerfisins séu nútíma þrælar þar sem gengið er mjög nærri þeim á lægstu mögulegu launum þar til eitthvað lætur undan. Heilsan brestur, bæði andleg og líkamleg, þegar unnið er í áraraðir undir gríðarlegu álagi, starfsemin undirmönnuð með þeim viðbótarskaða sem vaktavinna veldur. Lífsgæði eru skert því starfsumhverfið er ekki fjölskylduvænt.
Staðan og krafan í dag
Það er réttmæt og skynsamleg krafa sjúkraliða og annarra opinberra starfsmanna að vinnuvikan verði stytt í 30-35 klst. og verði enn styttri við ákveðinn lífaldur þar sem það hefur sýnt sig að það starfsumhverfi sem í boði er í stóriðju á Íslandi skilar árangri.
Það er ekki forsvaranlegt fyrir hið opinbera, sem vinnuveitanda, að fara illa með sitt starfsfólk. Bætt starfskjör skila árangri og hið opinbera mun fá umrædda breytingu margfalt til baka í bættri heilsu sjúkraliða og miklu meiri starfsánægju eins og hefur sýnt sig annars staðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri SLFÍ.